Handbolti

Sverre: Auðvitað hef ég áhyggjur

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar.
Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar. vísir/getty
Sverre Andreas Jakobsson, þjálfari Akureyrar, var mjög svekktur í leikslok eftir tap sinna manna gegn Stjörnunni í dag.

„Mjög svekktur, ég hafði góða tilfinningu fyrir þessu fyrir leik, í hálfleik og þegar leið á leikinn en svo kemur tímabil þarna þar sem þeir ná forskoti. Bubbi (Sveinbjörn Pétursson) lokar markinu og er svona matchwinner fyrir þá.”

Sóknarleikurinn hökti mikið um miðbik síðari hálfleiks og Leonid skytta Akureyrar tók sex skot í röð.

„Hann er skyttan okkar og á auðvitað að skjóta og við viljum það. Við vorum að reyna og menn vildu þetta en við fáum alltaf smá tímabil þar sem við lendum of mikið undir og þá vantar markvörslu, það er eitthvað sem við þurfum að skoða en við horfum bara fram á við á næsta verkefni.”

Sverre skipti um markmann í hálfleik þrátt fyrir fína frammistöðu hjá Arnari Þór Fylkissyni.

„Við erum bara að reyna, fer eftir því hvað þú kallar fínan, 5-6 boltar við viljum fá meira en það og við vildum sjá hvort við fengjum meira frá Marius en þeir eru bara báðir á pari. Maður stendur og fellur á þessu. Tek samt ekkert af Arnari hann gefur allt í þetta. Við þurfum bara að fá markvörsluna á hærra level.“

Hann hefur áhyggjur af stöðu liðsins eftir þessa byrjun en hefur trú á því að hans menn verði öflugri þegar á líður.

„Þarf ég að svara því hvort ég hafi áhyggjur? Auðvitað hef ég áhyggjur en ég veit hvað býr í þessu liði og ég veit við getum náð meira úr þeim. Við hefðum ekkert kosið að vera í þessari stöðu fyrirfram en við verðum bara að halda áfram.”

„Við megum ekki horfa bara á þetta, heldur meira næstu verkefni og ná í fleiri stig. Það er auðvitað stefnan að vera öflugri eftir því sem líður á,” sagði svekktur Sverre að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×