Enski boltinn

Hafnaði PSG af hollustu við Tottenham og sér eftir því

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Síðasta starf Villas-Boas var í Kína
Síðasta starf Villas-Boas var í Kína vísir/getty
Andre Villas-Boas er nafn sem flestir áhugamenn um enska boltann ættu að kannast við þó einhverjir séu eflaust búnir að gleyma þessum portúgalska knattspyrnustjóra sem staldraði stutt við hjá Chelsea og Tottenham.

Villas-Boas sló í gegn hjá Porto í heimalandinu og borgaði Chelsea fúlgur fjár til að ráða hann til sín sumarið 2011 en hann entist aðeins rúmlega hálfa leiktíð í starfi hjá Chelsea.

Hann fékk þó annað tækifæri í ensku úrvalsdeildinni sumarið á eftir þegar hann var ráðinn til Tottenham þar sem hann entist aðeins lengur eða í eina og hálfa leiktíð áður en hann var látinn taka pokann sinn.

Hann segir í samtali við portúgalska fjölmiðla að hann hafi hafnað samningstilboði PSG á meðan hann stýrði Tottenham.

„Fyrsta tímabilið hjá Spurs var stórkostlegt að öllu leyti. Við vorum ekki með stóran hóp en það var frábær andi og mikill vilji til að ná árangri,“ segir Villas-Boas.

„Við bættum stigamet Tottenham í úrvalsdeildinni með stórkostlegan Bale innanborðs og fleiri góða leikmenn,“ segir hann ennfremur en Bale var seldur til Real Madrid eftir fyrstu leiktíð Boas með Lundúnarliðið. Sama sumar kveðst hann hafa fengið tilboð frá París.

„Ég fékk tilboð frá Paris Saint-Germain, þeir vildu fá mig en ég sagði nei út af því að ég elskaði Tottenham. Kannski voru það mistök,“ segir Villas-Boas.

Óhætt er að segja að þjálfaraferill Portúgalans hafi farið hratt niður á við eftir tímann á Englandi þó hann hafi eflaust rakað inn seðlum en hann stýrði Zenit í Rússlandi í tvö ár áður en hann færði sig um set til Kína þar sem hann stýrði Shanghai SIPG eina leiktíð er nú án starfs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×