Körfubolti

Körfuboltakvöld: Brynjar er ástæðan fyrir því að Tindastóll verður meistari

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Brynjar hefur fallið vel inn í Tindastólsliðið
Brynjar hefur fallið vel inn í Tindastólsliðið vísir/bára
Tindastóll vann níu stiga sigur á Stjörnunni á föstudag en liðið hafði yfirhöndina allan leikinn.



Margir eru á því að Tindastóll sé besta lið Dominos-deildarinnar þessa stundina en þeir sitja á toppnum ásamt Reykjanesbæjarliðunum, Keflavík og Njarðvík.



Norðanmenn spiluðu frábæra vörn á Stjörnumenn í leiknum.



„Þeir loka miðjunni gríðarlega vel. Þeir eru með góðan grunn greinilega. Það er alltaf komin hjálp á bakvið og þriðja hjálpin á veiku hliðinni er komin líka. Þeir eru alltaf að gefa rétta skotið. Þeir loka og búa til minna pláss fyrir skyttur eða aðra,“ sagði Fannar.



Stólarnir hafa verið öflugir síðustu ár og urðu þeir bikarmeistarar á síðasta tímabili. Þeir hafa hins vegar aldrei unnið þann stóra, sjálfan Íslandsmeistaratitilinn.



Brynjar Þór Björnsson gekk til liðs við Tindastól frá Íslandsmeisturum KR fyrir tímabilið en sérfræðingarnir telja að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir Tindastól að hafa nælt sér í sigurvegara líkt og Brynjar.



„Tindastóll voru hrikalega skynsamir í kaupum á leikmönnum fyrir þetta tímabil. Taka Urald King, besta varnarmann deildarinnar. Hann bindur vörnina saman. Brynjar breytir liðinu sóknarlega séð, plús það að hann setur þetta sigurhugarfar í hausinn á mönnum. Þeir urðu bikarmeistarar í fyrra, en að vinna bikarmeistaratitil er svona fimmtíu sinnum auðveldara en að vinna Íslandsmeistaratitil, því þá þarftu að fara vinna seríur,“ sagði Hermann.



„Brynjar verður aðilinn sem er að fara leiða þá til sigurs. Það er ástæðan fyrir því að þeir verða meistarar,“ bætti Fannar við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×