Handbolti

Stefán Rafn markahæstur í Íslendingaslag

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Stefán Rafn Sigurmannsson
Stefán Rafn Sigurmannsson vísir/getty
Vinstri hornamaðurinn Stefán Rafn Sigurmannsson var markahæstur hjá Pick Szeged þegar liðið fékk Skjern í heimsókn í Meistaradeild Evrópu í dag.

Stefán Rafn skoraði sjö mörk úr tíu skotum en Bence Banhidi og Jonas Kallman voru næstmarkahæstir með fimm mörk.

Björgvin Páll Gústavsson varði tvö skot af þeim níu sem hann fékk á sig en Daninn Emil Nielsen spilaði stærstan hluta leiksins í marki Skjern. Tandri Már Konráðsson komst ekki á blað í liði Skjern.

Leikurinn var jafn og spennandi frá upphafi til enda en Skjern virtist ætla að sigla fram úr í upphafi síðari hálfleiks. Þá tóku heimamenn við sér og voru í raun hársbreidd frá því að vinna leikinn en Thomas Mogensen skoraði jöfnunarmark úr lokasókn Skjern í leiknum. Lokatölur 33-33 eftir að Skjern hafði leitt með einu marki í leikhléi, 14-15.

Stefán Rafn og félagar eru eftir sem áður í öðru sæti riðilsins og eru nú þremur stigum á eftir PSG. Skjern kom sér upp að hlið Flensburg í 4-5.sæti riðilsins en alls eru átta lið í B-riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×