Enski boltinn

Olivier Giroud: Ómögulegt fyrir fótboltamann að koma út úr skápnum í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Olivier Giroud.
Olivier Giroud. Vísir/Getty
Olivier Giroud, framherji Chelsea og heimsmeistara Frakka, hefur sagt sína skoðun á stöðu samkynhneigðra fótboltamanna í dag.

Giroud er á því að fótboltamenn geti hreinlega ekki komið út úr skápnum eins og fótboltaheimurinn er byggður upp í dag.

Almennt séð hefur heimurinn þroskast í viðhorfum sínum til samkynhneigðra en svo er ekki í fótboltanum. Mjög fáir fótboltamenn hafa þorað að koma út úr skápnum.

Olivier Giroud ræddi þessi mál í viðtali við franska blaðið Le Figaro. Í dag eru aðeins tveir fótboltamenn að spila sem hafa komið út úr skápnum. Þetta eru Collin Martin hjá Minnesota United og Svíinn Anton Hysen sem spilar með sænsku fjórðu deildarliði.





Árið 1990 var Justin Fashanu fyrsti samkynhneigði fótboltamaðurinn til að koma út úr skápnum. Hann átti mjög erfitt og framdi sjálfsmorð átta árum síðar.

„Það fékk mjög mikið á mig þegar ég sá Thomas Hitzlsperger kom út úr skápnum árið 2014. Þá var ég sannfærður um að það sé hreinlega ómögulegt fyrir fótboltamann að koma út úr skápnum í dag,“ sagði Olivier Giroud.

Thomas Hitzlsperger kom ekki út fyrr en eftir að fótboltaferli hans var lokið.

„Í búningsklefanum er mikið testósterón, mikill prirringur og menn fara saman í sturtu. Þetta er viðkvæmt mál en svoleiðis er það bara. Ég skil vel kvíðann og erfiðleikana við það að koma út úr skápnum. Það er mjög krefjandi þegar þú hefur haldið þessu fyrir sjálfan þig í mörg ár,“ sagði Giroud.

Olivier Giroud hefur lengi haft sterkar skoðanir á þessu máli og hefur barist fyrir stöðu samkynhneigðra. Hann var meðal annars á forsíðu Tetu, sem er blað fyrir samkynhneigða.

„Ég er mjög umburðarlyndur. Þegar ég var hjá Arsenal þá notaði ég regnbogalitina til að styðja við bakið á samfélagi samkynhneigðra. Það á hinsvegar eftir að vinna mikla vinnu í þessum málum í fótboltaheiminum,“ sagði Giroud.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×