Lífið

For­eldrar eru bestu lestrar­fyrir­myndirnar

Sólveig Gísladóttir skrifar
Ævar vísindamaður var kynnir á opnunarhátíð Bókabröltsins. Hann sagði gestum meðal annars frá tilurð og markmiðum verkefnisins.
Ævar vísindamaður var kynnir á opnunarhátíð Bókabröltsins. Hann sagði gestum meðal annars frá tilurð og markmiðum verkefnisins.
Bókabrölt í Breiðholti er skemmtilegt verkefni sem öll foreldrafélög grunnskólanna í Breiðholti standa að. Fimm hillur eru settar upp í hverfinu þar sem fólk getur komið með notaðar bækur og tekið aðrar í staðinn.

Opnunarhátíð verkefnisins var haldin í Mjódd á fimmtudaginn síðasta.

Frábært samstarf allra fimm foreldrafélaganna í grunnskólum Breiðholts þykir einstakt, en skólarnir eru Seljaskóli, Hólabrekkuskóli, Ölduselsskóli, Fellaskóli og Breiðholtsskóli. Verkefnið Bókabrölt í Breiðholti er eitt af fjölmörgum verkefnum sem samstarfið hefur getið af sér.

„Hugmyndin að Bókabröltinu vaknaði fyrir um ári en fyrirmyndir að svipuðum verkefnum má finna víða erlendis,“ segir Dröfn Vilhjálmsdóttir, bókasafns- og upplýsingafræðingur í Seljaskóla, sem kemur þó að verkefninu fyrst og fremst sem foreldri. „Um leið og Bókabrölt í Breiðholti mun setja skemmtilegan svip á hverfið stuðlar verkefnið að því að efla lestraráhuga og lestrarfærni meðal fullorðinna og barna með það að leiðarljósi að lestrarfyrirmyndir heima fyrir hafa mikil áhrif á bókaáhuga barna,“ segir Dröfn.

Verkefnið gengur út á að koma upp fimm hillum á fimm stöðum í hverfinu. Í hillunum verða notaðar bækur sem fólki er frjálst að taka með sér og það hvatt til þess að koma með aðrar notaðar í staðinn. „Við fengum fimm hillur gefins og ein fór í hvern skóla. Þar voru nemendur fengnir til að mála og skreyta hillurnar. Ein hilla verður síðan í hverju skólahverfi, á fjölförnum stað.“ 

Dröfn Vilhjálmsdóttir vonast til að bókabröltið muni mælast vel fyrir.

Opnunarhátíð á fimmtudag

Allar fallega skreyttu hillurnar fimm voru á opnunarhátíð átaksins í Mjódd á fimmtudag en þar var Ævar vísindamaður kynnir.

„Þetta verkefni rímar mjög vel við lestrarátak hans, en það síðasta verður haldið í janúar. Þá munu foreldrar einnig geta skilað inn lestrarmiðum eins og börnin hafa gert,“ lýsir Dröfn.

Eftir hátíðina var farið með allar hillurnar á sína staði, í ÍR-heimilið, Seljakjör, Hólagarð, Mjódd og Breiðholtslaug. Hvert foreldrafélag mun fóstra eina hillu og sjá til þess að henni sé vel við haldið.



Bókamerki og Facebook-síða

Þeir sem vilja geta fylgst með hillunum á Facebook-síðunni Bókabrölt í Breiðholti. Þar verða reglulega birtar myndir af hillunum.

„Þannig getur fólk séð spennandi bók sem það langar í, farið á staðinn og kippt henni með sér heim.“ Foreldrafélögin hafa látið hanna fyrir sig lógó og útbúa bókamerki sem dreift var til viðstaddra á fimmtudaginn. Bókamerkin verða svo aðgengileg í bókahillunum meðan birgðir endast.

Nemendur grunnskólanna í Breiðholti sáu um að skreyta bókahillurnar fimm.

Bækur á ýmsum tungumálum

Samfélagið í Breiðholti er líflegt og fjölþjóðlegt.

„Við höfum reynt að koma upplýsingum til fólks af ólíku þjóðerni í hverfinu í gegnum til dæmis Pólska skólann og ýmis sendiráð. Bókabröltið er nefnilega frábær vettvangur fyrir fólk frá hinum ýmsu löndum til að deila bókum á sínu tungumáli og fá aðrar.“



Vonandi komið til að vera

Dröfn segist viss um að bókabröltið muni hafa margar jákvæðar afleiðingar. „Markmiðið er að gera bækur sýnilegar og efla foreldra og aðra fullorðna í hverfinu sem lestrarfyrirmyndir en ég get líka ímyndað mér að bókahillurnar verði góður staður til að hitta fólk og spjalla við það hvort sem er um bækur eða daginn og veginn.“

Hún vonast til að átakið muni mælast vel fyrir. „Við munum meta verkefnið eftir eitt ár og sjá hvort tilefni sé til að fjölga hillum. Við vonum að þetta sé komið til að vera.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×