Innlent

Sagður hafa ekið barni á afvikinn stað og nauðgað

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Brot mannsins varða allt að sextán ára fangelsi.
Brot mannsins varða allt að sextán ára fangelsi. Vísir/Hanna
Karlmanni er gefið að sök nauðgun og kynferðisbrot gegn barni fyrir að hafa kvöld eitt fyrr á árinu ekið með stúlku undir lögaldri á afvikinn stað og brotið gróflega á henni. Samkvæmt ákæru á maðurinn að hafa þvingað hana til ýmissa kynferðislegra athafna og beitt hana ofbeldi og ólögmætri nauðung.

Maðurinn hélt henni fastri og tók um hár hennar og höfuð til að fá vilja sínum fram að því er kemur fram í ákæru héraðssaksóknara. Málið er til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Nýtti hann sér yfirburðarstöðu gagnvart stúlkunni vegna aldurs-, þroska- og aflsmunar og þess að hún var stödd ein með honum fjarri öðrum. Hlaut stúlkan eymsli á kynfærum og endaþarmi en auk þess marbletti víða á líkamanum.

Tók myndir af stúlkunni

Þá er maðurinn ákærður fyrir að hafa í fórum sínum sjö ljósmyndir af stúlkunni nakinni og í kynferðislegum stellingum. Myndirnar er hann sagður hafa tekið í umrætt skipti en lögregla fann myndirnar við leit í síma mannsins.

Brot mannsins varða bæði við 194. grein almennra hegningarlaga, sem fjalla um nauðgun og varða fangelsi allt að sextán árum, og 202. grein sömu laga sem fjalla um kynferðisbrot gegn börnum yngri en fimmtán ára. Þá varða brot hans einnig 210. grein laganna sem fjalla um að búa til kynferðislegt myndefni af börnum.

Móðir stúlkunnar fer fram á miskabætur og að málskostnaður verði greiddur úr hendi ákærða. Hljóðar miskabótakrafan upp á þrjár milljónir króna.

Reikna má með því að dómur í málinu verði kveðinn upp öðru hvoru megin við næstu mánaðamót.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×