Lífið

Hættir á toppnum: „Enginn glamúr að vera flug­freyja“

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Á 36 ára ferli sínum sem flugfreyja hefur Brynja aldrei lent í háska í háloftunum. Hún segist viss um að yfir henni sé haldið verndarhendi.
Á 36 ára ferli sínum sem flugfreyja hefur Brynja aldrei lent í háska í háloftunum. Hún segist viss um að yfir henni sé haldið verndarhendi. Fréttablaðið/Ernir
Eftir 36 ár í loftinu hefur flugfreyjan og fyrirsætan Brynja Nordquist tekið ofan flugfreyjuhattinn. Hún er nýgift og á leið í óvissuferð um rómantískar spænskar sveitir með ástinni sinni.

Á ég ekki að nota sama frasa og íþróttafólkið, að hætta á toppnum,“ segir Brynja sem fór í sitt síðasta flug mánudaginn 17. október.

„Ég er orðin 65 ára og fannst tímabært að hætta. Ég er fullfrísk en búin að fá nóg af hótellífi, ferðatöskum og labbi yfir risastóra flugvelli oft í viku í 36 ár. Ég er búin að fara í hnjáskiptaaðgerð á báðum hnjám en ég finn ekki fyrir neinu. Ég vildi bara hætta með reisn á meðan ég gat það,“ segir Brynja sem árið 1979 sótti um sumarstarf hjá Icelandair, sem í þá daga hét Loftleiðir.

„Draumurinn var alltaf að starfa sem ballettdansari,“ segir Brynja sem lærði ballett í Listdansskóla Þjóðleikhússins og kenndi dans í Dansskóla Hermanns Ragnarssonar. „Ég var svo í vinnu hjá tískublaðinu Lífi þegar ég sá auglýsingu frá Loftleiðum og þótti spennandi að sækja um. Ásókn í flugfreyjustarfið var jafn mikil og hún er í dag og þegar ég komst inn var sagt í Helgarpóstinum að módelskvísa úr Módel 79 hefði fengið starfið í gegnum klíku. En ég stóð mig vel í inntökuprófinu og mundi segja að ég hafi verið rétta manneskjan í starfið. Þegar ég lít til baka er ég sannfærð um að ég hafi bara staðið mig ansi vel og ég fékk bæði hrós og falleg bréf frá farþegum.“

Villingur í Lundúnum

Brynja stundaði dansnám í Lundúnum um tveggja ára bil en flosnaði upp úr náminu.

„Það gerðist eitthvað, mig langaði allt í einu ekki til að dansa og annað tók við. Ég gerðist villingur, fór að hanga innan um „hipp og kúl“ liðið í London og nennti þessum dansskóla ekki lengur. Ég átti yndislega foreldra sem treystu mér en hefði getað lent í veseni og tel mig heppna að hafa fetað rétta braut,“ segir Brynja sem setti tappann í flöskuna fyrir fjórum árum.

„Mér fannst ég vera farin að nota áfengi of mikið. Ég var alltaf til í að fá mér í glas ef einhver annar var til. Einn daginn fannst mér bara vera komið nóg og vildi hætta þessu. Mig langaði að vakna glöð og jákvæð á morgnana í stað þess að vera kvíðin og illa fyrirkölluð.“

Brynja segist ekki geta svarið fyrir að áfengisnotkunin hafi fylgt flugfreyjustarfinu.

„Vínið kom reyndar aldrei niður á vinnunni en ég var orðin þreytt á kvíðanum sem fylgdi því að fá sér oftar og oftar í glas og leita jafnvel að tilefnum til að fá mér vín. Í mínu tilfelli held ég að óreglulegur vinnutími hafi ýtt undir þetta. Það verða oftar tilefni til að fá sér drykk, annaðhvort eftir langt flug eða eftir erfiða vinnutörn. Ég fór að sjá að ég var oftar með glas í hendi en edrú og hugsaði með mér: Ég þarf ekki vín til að vera hress, njóta lífsins og hafa gaman. Ég er orkumikil og alltaf á útopnu og meira að segja vinir mínir á Snappinu segjast verða uppgefnir á að fylgjast með mér,“ segir Brynja og skellihlær.

 

Alls ekkert glamúrlíf

Þegar Brynja sótti um flugfreyjustarf árið 1979 var aldurshámarkið 26 ár.

„Ég var akkúrat á þeim aldri og hugsaði með mér að nú væri að duga eða drepast að komast inn. Í gamla daga máttu flugfreyjur ekki heldur vera giftar en í dag geta harðgiftar ömmur sótt um flugfreyjustarfið. Breytingar eru örar í þessu starfi á öllum sviðum. Að vera flugfreyja er mikil keyrsla og vegna gífurlegrar aukningar flugframboðs og fjölgunar flugvéla þarf maður sífellt að keppast við að gera enn betur við farþegann. Við það leggst enn meiri vinna á hverja flugfreyju,“ útskýrir Brynja.

Í bankahruninu var svo fækkað um eina flugfreyju í hverri áhöfn. Áður voru þær fimm en nú eru þær fjórar. Það segir Brynja að hafi aukið álagið til muna.

„Margir telja flugfreyjustarfið umvafið glamúr en sá orðrómur fylgdi sennilega gömlu dögunum þegar Íslendingar fóru sjaldnar til útlanda,“ segir Brynja. „Það er enginn glamúr að vera flugfreyja í dag. Maður skríður á gólfum til að þrífa upp ælu og er allt í senn; öryggisvörður, þjónustukona og sjúkraliði. Það er líka hörkuvinna að standa upp á endann og labba fram og aftur tímunum saman í þessu röri sem flugvél er. En að hitta 180 til 240 farþega krefst þess að hafa einbeitinguna í lagi, ríka þjónustulund, jákvætt viðmót og að sjálfsögðu að vera snyrtilegur. Allt snýst það um virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum.“

Brynja fékk höfðingjalegar móttökur þegar hún var kvödd eftir síðasta flug sitt sem flugfreyja frá New York þann 17. október síðastliðinn. Hér er hún með áhöfninni sem vann með henni í síðasta fluginu.

Kvíðir því ekki að deyja

Brynja kveðst hætta sátt.

„Því fylgir auðvitað tregi að kveðja samstarfsfólkið og upplifa að nú sé þetta vinnutímabil ævinnar á enda, en við tekur nýtt tímabil og ný ævintýr. Ég er spennt fyrir framtíðinni og kvíði því ekki að deyja en það er undarleg tilfinning að sjá allt yndislega fólkið sem hefur fylgt manni í gegnum lífið eldast, og vitaskuld gerir maður það sjálfur. Sonur minn segir stundum að ég sé orðin hæg og ég veit það vel, enda eðlilegur hluti af því að eldast,“ segir Brynja.

Hún hafði upphaflega ætlað sér að vinna til 67 ára aldurs.

„Ég var í fullu starfi til ársins 2008 þegar flugfreyjur voru beðnar að lækka starfshlutfallið vegna hrunsins svo að fleiri flugliðar héldu vinnunni. Þá fór ég í 67 prósent starf og fannst ég hafa meiri tíma til að uppgötva lífið fyrir utan rörið. Ég ákvað því að hætta 65 ára og njóta lífsins með fjölskyldu og vinum. Svo er ég ekki endilega hætt að vinna því hver veit nema ég taki að mér einhver skemmtileg störf?“ segir Brynja kát og lífsglöð.

„Ég lifi þokkalega heilbrigðu lífi en borða sælgæti út í eitt. Elska Staur og fleira slikkerí, ósköp hversdagslegan mat og er ekki á neinu sérstöku hollustufæði,“ segir Brynja sem er annáluð fegurðardís og síung í útliti.

„Fegurðin kemur innan frá og jákvæðni gerir fólk fallegt. Sumir eru óhamingjusamir og bera þess merki. Ég er þakklát góðum genum foreldra minna sem bæði voru gott fólk og myndarlegt með fallega húð. Útlitið hefur samt svo lítið að segja. Það er hugur og hjarta sem skiptir máli og innrætið sem skín í gegn.“

 

Brynja er ein fárra sem geta málað sig án þess að nota spegil.

„Ég set á mig meik, varalit og maskara en mála mig ekki mikið utan þess. Mamma bar á mig Nivea-krem þegar ég var lítil, og ég nota enn Nivea-hreinsivörur til að þvo af mér farðann, en á andlitið set ég Eucerin-rakakrem sem kostar 990 krónur. Ég fer aldrei úr húsi ómáluð og aldrei í sund því mér dettur ekki í hug að einhver sjái mig með blautt hárið eða ótilhafða. Ég er svolítið mikið pjöttuð.“

Brynja segist vera heilmikil pjattrófa sem lætur sér ekki detta í hug að fara ótilhöfð úr húsi né í sund þar sem fólk gæti séð hana með blautt hárið.Fréttablaðið/Ernir

Líklega svolítið skrýtin

Brynja gekk að eiga Þórhall Gunnarsson, leikara, sjónvarpsmann og framleiðanda hjá Saga Film, fyrr á þessu ári en þau höfðu þá verið kærustupar í 24 ár.

„Við erum á leið í síðbúna brúðkaupsferð til Spánar. Við fórum á ferðaskrifstofuna Úrval Útsýn og báðum þau að útbúa fyrir okkur tveggja vikna óvissuferð. Það eina sem við vitum er að við lendum á Spáni 7. nóvember og þaðan fáum við svo leiðbeiningar um hvert skal halda og þannig verður óvissa og ævintýri hlutskipti okkar í tvær vikur. Við skiptum um áfangastað á tveggja til þriggja daga fresti og fáum upplýsingar um nýjan stað kvöldið áður. Okkur langar að allt komi okkur á óvart í ferðinni, nýir bæir eða þorp, fólkið, mannlífið og veitingastaðir. Við viljum uppgötva þá sjálf í stað þess að „gúgla“ þá eða lesa ferðabæklinga,“ segir Brynja, full tilhlökkunar.

Þau Brynja og Þórhallur verða á Instagram undir hennar nafni og á heimasíðunni twoofus.me.

„Þar getur fólk fylgst með og hugsað með sér: „Djöfull eru þið klikkuð“, en líklega erum við svolítið skrýtin. Við hlökkum mikið til að láta koma okkur á óvart og það besta við að fara bara tvö er að þá þarf ekkert pjatt. Það verður nóg að taka með sér eitt sparidress, strigaskó og jogginggalla,“ segir Brynja og hlær.

Þau Þórhallur fara líka reglulega til Svíþjóðar að heimsækja Gunni, dóttur Þórhalls og stjúpdóttur Brynju, en hún og Gulli eiginmaður hennar eiga tvö börn, Tinnu Vigdísi 7 ára og Þór 3ja ára.

„Ömmuhlutverkið er dásamlegt og nú hef ég loksins meiri tíma fyrir litlu krúttin. Ég á líka besta ömmustrák í heimi sem fékk nafnið mitt, Oliver Nordquist, og dvelur mikið hjá okkur. Ég á líka í yndislegu samband við mömmu Olivers og fyrrverandi tengdadóttur mína, og fæ stundum að passa litlu strákana hennar sem eru hálfbræður Olivers,“ segir Brynja.

„Ég er dálítið stjórnsöm en á sama tíma held ég að ég sé að passa upp á allt í kringum mig,“ segir Brynja og brosir. „Þórhallur segir að ég sé meðvirkasta kona í heimi, á góðlátan hátt. Oliver á reyndar auðvelt með að plata mig að sækja sig og keyra því það er ósköp erfitt að segja nei við þennan dreng. Ég vil að hann eigi minningar um ömmu sína sem var hress og góð og sem snappaði og var á Instagram og gerði allt skemmtilegt með honum,“ segir Brynja og lítur yfir farinn veg.

„Efst í huga mér er gleði yfir skemmtilegum stundum en líka sorg og söknuður eftir þeim sem eru farnir. Ég er orðin ein eftir af minni uppvaxtarfjölskyldu, bróðir minn dó 58 ára, pabbi 76 ára en mamma var orðin 94 ára þegar hún kvaddi fyrir þremur árum. Hún var einstaklega lífsglöð og jákvæð og kvartaði aldrei. Ég reyni að temja mér allt það góða frá mömmu til að njóta lífsins sem best.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×