Handbolti

Stórleikur Ómars og Gunnar Steinn bjargaði stigi fyrir Ribe-Esbjerg

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ómar Ingi í leik með íslenska landsliðinu en hann átti góðan leik fyrir Álaborg í kvöld.
Ómar Ingi í leik með íslenska landsliðinu en hann átti góðan leik fyrir Álaborg í kvöld. vísir/vilhelm
Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði fjögur mörk er SønderjyskE hafði betur, 33-30, gegn GOG í Íslendingaslag í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta.

GOG var einu marki yfir í hálfleik, 15-14, en góður síðari hálfleikur skilaði SønderjyskE þriggja marka sigri, 33-30.

Arnar Birkir skoraði fjögur fyrir SønderjyskE sem er nú í sjötta sætinu en Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði fimm mörk fyrir GOG sem er í öðru sætinu.

Gunnar Steinn Jónsson skoraði fjögur mörk og Rúnar Kárason eitt er Ribe-Esbjerg gerði jafntefli, 24-24, gegn Nordsjælland á heimavelli.

Ribe var 15-11 undir í hálfleik en Gunnar Steinn bjargaði stigi fyrir Ribe fimm sekúndum fyrir leikslok. Ribe er í þriðja neðsta sæti deildarinnar.

Ómar Ingi Magnússon átti flottan leik fyrir Álaborg sem vann níu marka sigur á Ringsted, 22-31, eftir að hafa verið tveimur mörkum undir í hálfleik 14-12.

Eftir að hafa klúrað fyrstu tveimur skotum sínum skoraði Ómar sjö mörk í röð auk þess að gefa þrjár stoðsendingar. Janus Daði Smárason bætti við einu marki og stoðsendingu en Álaborg er í þriðja sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×