Körfubolti

Framlengingin: „Þetta er eins og að fá fimm á samræmdu“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Fannar Ólafsson og Teitur Örlygsson voru í miklu stuði í Framlenginunni í Domino’s Körfuboltakvöldi í gærkvöldi.

Að venju voru fimm málefni rædd og þar var meðal annars fjallað um hvort að Keflavík væri besta liðið, hvort að Stjarnan væri meistaraefni og hvort að Valsmenn myndu vinna leik.

„Þeir eru búnir að tapa öllum leikjunum og mér finst ég sjá á Gústa að hann er orðinn virkilega þreyttur á þessu. Þeir eru ekkert búnir að vera sérstaklega nálægt því að vinna heldur,“ sagði Teitur um Valsmenn.

„Menn verða að girða sig í brók og afsökunin er búin frá því í fyrra. Núna verða menn að hætta að hugsa um að Nettó-mótið var í gangi í fyrra því núna eru þeir í úrvalsdeild. Þeir þurfa að hætta þessu blaðri og rugli og þurfa vinna eitthvað,“ bætti Fannar við.

Lokaumræðuefnið var svo sú ákvörðun Tindastóls að fá PJ Alawoya í stað Urald King sem er á leið til Bandaríkjanna í fæðingarorlof en kona hans á að eignast barn á næstu vikum. Fannar er ekki hrifinn af þessu.

„Þetta er eins og að fá fimm á samræmdu,“ sagði Fannar.

Allt innslagið má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×