Erlent

Minnst 12 látnir í flóðum á Ítalíu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mannskæð flóð herja nú á Sikiley.
Mannskæð flóð herja nú á Sikiley. Vísir/AP
Að minnsta kosti 12 hafa látið lífið og tveggja er saknað eftir ofsafengin flóð á Sikiley á Ítalíu.

Samkvæmt fréttaflutningi AP-fréttaveitunnar voru níu hinna látnu meðlimir tveggja fjölskylda sem héldu til í stóru sumarhúsi nálægt Palermo. Aðeins einn maður úr þeim hópi, eigandi hússins, lifði af.

Honum tókst að klifra upp á þak húss í grenndinni og hringja eftir hjálp en ekki tókst að bjarga öðrum úr húsinu. Meðal þeirra sem létust voru börn, frá eins árs aldri upp í táningsaldur.

Þá fannst lík karlmanns í bíl við vegrið á svæðinu, en yfirvöld segja flóðið hafa hrifið bílinn með sér og valdið þannig dauða mannsins.

Loks segir slökkvilið í bænum Cammarata, sem er hinu megin á Sikiley, vera að vinna að því að ná í lík tveggja sem létust þegar flóð hreif bíl þeirra með sér. Slökkvilið á svæðinu hefur þá bjargað 14 manns út af hóteli í bænum Montevago.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×