Erlent

Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna samþykkir nýtt ópíóðalyf

Sylvía Hall skrifar
Vísir/Getty
Bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið (FDA) samþykkti á föstudag ópíóðalyfið Dsuvia. Lyfið er tíu sinnum sterkara en verkjalyfið fentanýl sem hefur verið tengt við mörg dauðsföll undanfarin ár.

Ráðgjafanefnd eftirlitsins varaði við því að lyfið yrði samþykkt en misnotkun verkjalyfja hefur aukist síðustu ár. Í september á þessu ári voru 32 dauðsföll rakin til ofneyslu fíkniefna hérlendis, samanborið við 30 á síðasta ári.

Dsuvia er því nýjasta ógnin við þann faraldur sem geisar nú yfir að sögn margra sem berjast gegn misnotkun verkjalyfja og hafa gagnrýnt samþykktina. Lyfið sé enn ein viðbótin við það mikla framboð sem er af sterkum verkjalyfjum og hafa margir áhyggjur af því að það geri illt ástand verra. 

Dsuvia kemur í töfluformi og þrátt fyrir smæð sína er það eitt sterkasta ópíóðalyf sem hefur verið samþykkt en það er þúsund sinnum sterkara en morfín.

Scott Gottlieb, nefndarmaður matvæla- og lyfjaeftirlitsins, sagðist vilja skoða þann möguleika á að rannsakað yrði hvort of mörg samskonar lyf væru á markaði og sem myndi gera nefndinni kleift að hafna leyfisveitingum fyrir samskonar lyf í framtíðinni.  

„Við þurfum að horfast í augu við þær spurningar sem vakna við gagnrýni á þetta lyf,“ sagði Gottlieb og benti á að kannski væri tími til kominn til þess að horfa á vandamálið í heild sinni en ekki hvert lyf fyrir sig. Misnotkun verkjalyfja væri því miður staðreynd sem eftirlitið þyrfti að fara að taka tillit til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×