Handbolti

Aron öflugur í sigri Barcelona

Anton Ingi Leifsson skrifar
Aron í leik með Barcelona þar sem FH-ingurinn er að gera flotta hluti.
Aron í leik með Barcelona þar sem FH-ingurinn er að gera flotta hluti. vísir/getty
Aron Pálmarsson átti góðan leik fyrir Barcelona sem vann fjögurra marka sigur á Kielce, 31-27, í Meistaradeild Evrópu í handbolta.

Börsungar voru á heimavelli í kvöld og þeir voru þremur mörkum yfir gegn pólska stórliðinu í hálfleik, 14-11. Þeir héldu uppteknum hætti í síðari hálfleik og unnu öruggan sigur.

Aron stýrði leik Börsunga af mikilli festu en einnig skoraði hann fimm mörk úr þeim níu skotum sem hann tók. Markahæstir voru Casper Mortensen og Aleix Gomez með sex mörk hvor.

Börsungar eru með fullt hús stiga í A-riðlinum í Meistaradeildinni og eru þeir á toppnum ásamt Vardar. Kielce er í þriðja sætinu með átta stig, eins og Rhein-Neckar Löwen.

Íslendingaliðið Skjern tapaði með fjórum mörkum fyrir Flensburg á útivelli, 26-22, í sömu keppni. Staðan var jöfn í hálfleik, 10-10 en Tandri Már Konráðsson og Björgvin Páll Gústavsson voru í hóp Skjern.

Skjern er í fimmta sæti B-riðils með fimm stig en Flensburg hoppaði með sigrinum upp að hlið Nantes í þriðja til fjórða sæti riðilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×