Erlent

Sænska þingið mun greiða atkvæði um Kristersson

Atli Ísleifsson skrifar
Ulf Kristersson er formaður hægriflokksins Moderaterna.
Ulf Kristersson er formaður hægriflokksins Moderaterna. Getty/Bloomberg
Sænska þingið mun greiða atkvæði um Ulf Kristersson, formann hægriflokksins Moderaterna, sem nýjan forsætisráðherra Svíþjóðar. Atkvæðagreiðslan verður haldin mánudaginn 12. nóvember, en ekki er ljóst á þessari stundu hvort að meirihluti þings muni styðja Kristersson.

Andreas Norlén, forseti sænska þingsins, greindi frá ákvörðun sinni í morgun.

Eftir að Stefan Löfven, formaður Jafnaðarmanna og starfandi forsætisráðherra, skilaði stjórnarmyndunarumboði sínu um þarsíðustu helgi tilkynnti Norlén að hann myndi ekki veita neinum formanni nýtt umboð til stjórnarmyndunar. Þess í stað boðaði hann leiðtoga flokkanna til hópviðræða út frá fjórum tillögum að nýrri stjórn og fóru þær viðræður fram í síðustu viku.

Kristersson mun því næstu vikuna reyna að safna nægilegum stuðningi innan þingsins.

Tillögurnar sem Norlén nefndi í síðustu viku voru:

  • Þjóðstjórn með Jafnaðarmönnum, Græningjum og borgaralegu flokkunum.
  • Miðjustjórn með Jafnaðarmönnum, Græningjum, Miðflokknum og Frjálslyndum.
  • Ríkisstjórn borgaralegu flokkanna og Græningja.
  • Borgaraleg ríkisstjórn í einhverri mynd sem Kristersson hefur nefnt.


Afar snúin staða er á sænska þinginu eftir kosningarnar sem fram fóru 9. september síðastliðinn. Rauðgrænu flokkarnir náðu 144 þingsætum, borgaralegu flokkarnir 143 og Svíþjóðardemókratar 62.

Takist sænska þinginu ekki að samþykkja nýjan forsætisráðherra í fjórum tilraunum skal boðað til nýrra kosninga. Atkvæðagreiðslan um Kristersson á mánudaginn í næstu viku er sú fyrsta í röðinni. Það er forseti þingsins sem tilnefnir nýjan forsætisráðherra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×