Fótbolti

Öll skot á rammann verða mark

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Alfreð skoraði fyrsta mark Augsburg gegn Nürnberg um helgina
Alfreð skoraði fyrsta mark Augsburg gegn Nürnberg um helgina Vísir/Getty
Landsliðsframherjinn Alfreð Finnbogason byrjaði tímabilið með þýska liðinu Augsburg meiddur en eftir að hann kom til baka úr meiðslunum hefur hann verið óstöðvandi.

Alfreð er búinn að spila fimm deildarleiki og skoraði í þeim sex mörk. Hann setti þrennu strax í fyrsta leik eftir meiðslin og er svo búinn að setja eitt mark í þremur af hinum fjórum leikjunum.

Sex mörk í fimm leikjum er mjög góð tölfræði en tölfræðifyrirtækið Opta kafaði dýpra og fann enn merkilegri staðreynd.

Alfreð er bara búinn að skjóta á markrammann sex sinnum í þessum fimm leikjum. Öll skot hans sem á annað borð hitta á markið hafa orðið að marki.





Það kemur ekki fram hversu mörg skot Alfreð á í heildina í leikjunum, það má fastlega gera ráð fyrir því að hann hafi átt einhverjar marktilraunir sem ekki rötuðu á rammann, en það tekur ekki frá þessari stórgóðu tölfræði.

Alfreð er eini maðurinn sem hefur skorað fyrir Ísland í Þjóðadeild UEFA og hann er líklega fyrsti framherjinn á blað hjá Erik Hamrén og Frey Alexanderssyni þegar þeir velja landsliðshópinn fyrir síðasta leik Íslands í Þjóðadeildinni þetta árið gegn Belgum í næstu viku.

Hópurinn fyrir leikinn gegn Belgum og vináttuleik gegn Katar verður kynntur í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×