Fótbolti

Stuðningsmenn gestaliðsins fá ekki að mæta á Superclasico

Arnar Geir Halldórsson skrifar
vísir/getty
Sögulegt úrslitaeinvígi er framundan í Copa Libertadores, Meistaradeild Suður-Ameríku, þar sem tvö sigursælustu lið Argentínu frá upphafi, nágrannaliðin Boca Juniors og River Plate, munu leiða saman hesta sína. Er þetta í fyrsta skipti í sögunni sem þessir miklu erkifjendur mætast á lokastigi keppninnar. 

Félögin hafa tekið sameiginlega ákvörðun um að gestaliðið fái enga aðgöngumiða á leikina og er sú ákvörðun tekin af öryggisástæðum en oft hefur soðið upp úr í stúkunni á leikjum þessara liða í gegnum tíðina.

Raunar hefur þessi regla verið við lýði frá árinu 2014 þegar félögin fengu sig fullsödd af slagsmálum í stúkunni en þegar ljóst var að þau myndu nú mætast í úrslitaeinvígi Copa Libertadores myndaðist pressa á að leyfa gestaliðinu að fá 4000 aðgöngumiða líkt og tíðkaðist áður.

Forseti Argentínu, Maurico Macri, blandaði sér til að mynda í umræðuna og lagði til að gestaliðið myndi fá sína 4000 aðgöngumiða auk þess sem öryggisfulltrúi Buenos Aires var tilbúinn að leggja blessun sína við það.

Félögin sendu hins vegar frá sér sameiginlega yfirlýsingu í gær þar sem staðfest var að stuðningsmenn gestaliðanna myndu ekki fá að mæta. Fyrri leikurinn fer fram á La Bombonera, heimavelli Boca, næstkomandi laugardag.

Síðari leikurinn fer svo fram á El Monumental, heimavelli River Plate, þann 24.nóvember næstkomandi.


Tengdar fréttir

Superclasico í úrslitaeinvígi Meistaradeildar Suður-Ameríku

Vægast sagt risaslagur framundan í úrslitaviðureign Copa Libertadores, Meistaradeild Suður-Ameríku, í fótbolta þar sem tvö stærstu lið Argentínu eru komin í úrslit og verður það í fyrsta sinn í sögunni sem þau mætast í úrslitaleik keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×