Viðskipti innlent

Raunvextir enn lágir á Íslandi í sögulegu samhengi

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri í pontu á peningamálafundi Viðskiptaráðs Íslands í morgun.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri í pontu á peningamálafundi Viðskiptaráðs Íslands í morgun. Vísir/Einar Árnason
Seðlabankastjóri segir raunvexti enn lága á Íslandi í sögulegu samhengi þrátt fyrir vaxtahækkunina í gær en þeir eru núna rúmlega eitt prósent miðað við forsendur sem Seðlabankinn styðst við. Könnun Seðlabankans meðal starfsmanna á fjármálamarkaði leiddi í ljós flestir þeirra bjuggust við vaxtahækkun.

Sú ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands að hækka meginvexti Seðlabankans um 0,25 prósentur í 4,5% vakti mjög hörð viðbrögð hjá forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar gær.

„Við megum ekki gleyma því að raunvextir eru núna í sögulegu samhengi, sérstaklega langtímavextirnir, enn lágir á Íslandi. Hæpið er hins vegar að tæplega 1% raunvextir dugi til í þjóðarbúi sem er við fulla atvinnu og rúmlega það, verðbólga er þegar yfir markmiði en á leiðinni upp, spenna er enn til staðar og hagvöxtur er að nálgast jafnvægisvöxt en ofan frá,“ sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri í ræðu á peningamálafundi Viðskiptaráðs Íslands í morgun.

Seðlabankinn kannar reglulega væntingar svokallaðra markaðsaðila til verðbólgu. Hér er í raun um að ræða starfsfólk fjármálafyrirtækja en þátttakendur eru rekstrarfélög, greiningardeildir, lífeyrissjóðir, verðbréfamiðlanir og eignastýringarfyrirtæki.

„Ekki er hægt að segja að vaxtahækkunin hafi komið markaðsaðilum á óvart. Samkvæmt könnun á væntingum markaðsaðila sem Seðlabankinn birti á mánudaginn þá bjuggust þeir flestir við því að vextir yrðu hækkaðir um 0,25 prósentur fyrir áramót,“ sagði Már.

Greint var frá niðurstöðum könnunarinnar á vef Seðlabankans á mánudag, daginn áður en peningastefnunefnd tók ákvörðun um vextina. Miðað við miðgildi svara í könnuninni bjuggust markaðsaðilar við að meginvextir Seðlabankans myndu hækka um 0,25 prósentur í 4,5%.


Tengdar fréttir

Frekari vaxtahækkanir í kortunum

Aðalhagfræðingur Kviku segir ekki ólíklegt að fleiri vaxtahækkanir fylgi í kjölfarið á vaxtahækkun Seðlabankans í gær. Forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins segir hækkunina til þess fallna að hraða kólnun hagkerfisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×