Innlent

Beiðni Arnarlax um undanþágu liggur óafgreidd

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Lífríkið þarf minnst 6 mánaða hvíld eftir að slátrað er úr laxeldiskvíum.
Lífríkið þarf minnst 6 mánaða hvíld eftir að slátrað er úr laxeldiskvíum. Fréttablaðið/Jón Sigurður
Ósk Arnarlax um undan­þágu frá ákvæði um hvíldartíma hefur verið í vinnslu í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu í nær fjóra mánuði án niðurstöðu.

Fréttablaðið greindi frá því í september að kvartanir hefðu borist Umhverfisstofnun vegna brota á starfsleyfi. Eldissvæði væru ekki hvíld í að lágmarki 6-8 mánuði milli eldislota eins og skylt væri. Í mars tæmdi Arnarlax sjókvíar í Hringsdal í Arnarfirði. 6. júní hófst útsetning seiða þar á ný, aðeins þremur mánuðum eftir tæmingu.

Bændur í nágrenninu áttu í bréfaskriftum vegna málsins, fyrst við Umhverfisstofnun með kröfum um að Arnarlax yrði látið fara að lögum eða yrði ella svipt starfsleyfi. Svo við umhverfisráðuneytið með kvörtunum undan aðgerðarleysi stofnunarinnar.

Umhverfisstofnun tilkynnti Arnar­laxi um fyrirhugaða áminningu 16. júlí. Í kjölfarið sendi Arnarlax stofnuninni úrbótaáætlun sem miðaði að því að sótt yrði um undan­þágu frá hvíldartíma til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Beiðnin var send ráðuneytinu 30. júlí, fyrir rúmum þremur mánuðum.

Í september sendi Umhverfisstofnun umsögn til ráðuneytisins og lagðist gegn því að Arnarlax fengi undanþágu frá starfsleyfi.

Ráðuneytið segir í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins að unnið sé að því að ljúka málinu eins fljótt og auðið er.




Tengdar fréttir

Arctic Sea Farm og Fjarðalax fá rekstrarleyfi í tíu mánuði

Fiskeldisfyrirtækin Arctic Sea Farm hf. og Fjarðalax hf. hafa fengið rekstrarleyfi til bráðabirgða til 10 mánaða fyrir laxeldi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði, samkvæmt ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×