Umfjöllun, viðtöl og myndir: Haukar - Skallagrímur 82-80 | Haukar höfðu betur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hjálmar Stefánsson
Hjálmar Stefánsson vísir/bára
Haukar unnu tveggja stiga sigur á Skallagrím í Domino‘s deild karla í kvöld. Leikurinn var mjög sveiflukenndur en heimamenn höfðu betur eftir spennuþrungnar lokamínútur í Hafnarfirði.

Haukar byrjuðu leikinn illa og skoruðu gestirnir úr Borgarnesi fyrstu körfurnar. Þegar staðan var orðin 2-11 vöknuðu heimamenn aðeins til lífsins en náðu þó ekki að laga stöðuna mikið, munurinn var átta stig að loknum fyrsta leikhlutanum.

Í öðrum leikhluta varð 18 stiga sveifla heimamönnum í vil og þeir fóru með tíu stiga forskot inn í hálfleikinn. Gestirnir unnu það hins vegar upp á fyrstu tveimur mínútunum í seinni hálfleik, leikurinn var svo sannarlega leikur áhlaupa.

Fjórði leikhlutinn var sá eini sem var jafn allan tímann. Hjálmar Stefánsson jafnaði fyrir Hauka á síðustu sekúndu þriðja leikhluta og það var mikil spenna allan loka fjórðunginn.

Liðin skiptust á að hafa forystuna en hún endaði hjá heimamönnum sem fóru með 82-80 sigur og nældu þar í sinn þriðja sigur í deildinni í vetur.



Af hverju unnu Haukar?

Heimamenn náðu að setja stopp við áhlaup gestanna í þriðja leikhluta og fóru svo aftur að spila betur í þeim fjórða og áttu síðasta orðið. Skallagrímur var með boltann nær alla síðustu mínútu leiksins en Haukarnir spiluðu góða vörn á þá og þeim gekk ekki að koma mikilvæga lokaskotinu niður.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjálmar Stefánsson var að spila sinn fyrsta leik á tímabilinu eftir meiðsli og það var ekki að sjá á honum að hann hefði ekki spilað leik síðan síðasta tímabili lauk. Þá var Hilmar Smári Henningsson mjög góður fyrir Hauka.

Í liði Skallagríms átti Björgvin Hafþór Ríkharðsson mjög góðan dag og var þeirra stigahæstur ásamt Aundre Jackson.

Hvað gekk illa?

Bæði lið áttu góð áhlaup og slæm. Skallagrímur var með þriðjungi fleirri tapaða bolta heldur en Haukar og það reyndist þeim dýrkeypt, þeir voru oft að gera nokkuð klaufaleg mistök.

Hvað gerist næst?

Skallagrímur fær Keflavík i heimsókn á fimmtudaginn á sama tíma og Haukar sækja fimmfalda Íslandsmeistara KR heim.

Ívar: Frábærir í tveimur leikhlutum, hræðilegir í hinum

Annar og fjórði leikhluti skiluðu sigrinum að mati Ívars Ásgrímssonar, þjálfara Hauka.

„Við vorum mjög góðir í öðrum, mjög góðir í fjórða, en skelfilegir í fyrsta og þriðja. Það var bara þannig.“

„Þetta voru bara tveir leikhlutar hjá okkur af fjórum.“

Hvað var Ívar ánægðastur með í leiknum? „Sigurinn er ég alveg gríðarlega sáttur við.“

„Mér fannst við vera mjög góðir í þessum tveimur leikhlutum. Við erum í smá vandræðum út af því að það vantar Kristján, en Hjálmar kom sterkur inn. Vörnin í tveimur leikhlutum frábær en hræðileg í hinum tveimur.“

„Hjálmar er bara að sýna gæði, ég er alveg gríðarlega sáttur,“ sagði Ívar Ásgrímsson.

Finnur: Getum alltaf bætt okkur

„Mikið af töpuðum boltum og fullt af ákvarðanatökum hjá okkur sem voru slæmar hjá okkur í dag,“ sagði Finnur Jónsson, þjálfari Skallagríms.“

„Við náðum að koma aftur í seinni hálfleik og það voru svakalegar sveiflur í þessum leik.“

Gat Finnur gert eitthvað betur í leiknum til þess að útkoman yrði önnur? „Já, alveg pottþétt.“

„Við getum alltaf bætt okkur. Þessar ákvarðanatökur hjá okkur, við þurfum bara að horfa á leikinn aftur og læra af honum.“

„Við gáfumst aldrei upp, lendum í djúpri holu en grófum okkur aftur upp,“ sagði Finnur Jónsson.

Bjarni Guðmann Jónssonvísir/bára
Aundre Jacksonvísir/bára
Haukur ÓskarssonVísir/bára
vísir/bara

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira