Innlent

Hafa áhyggjur af „víðernisímynd Íslands í hugum ferðamanna“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Samtök ferðaþjónustunnar hafa áhyggjur af aukinni uppgræðslu lands.
Samtök ferðaþjónustunnar hafa áhyggjur af aukinni uppgræðslu lands.

Samtök ferðaþjónustunnar segja að áætlanir um uppgræðslu lands, sem finna má í nýrri Aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, gætu „skaðað víðernisímynd Íslands í hugum erlendra ferðamanna“. Þetta kemur fram í umsögn samtakanna um aðgerðaáætlunina.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskaði á dögunum eftir umsögnum um Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum 2018 – 2030. Markmiðið með áætluninni er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að aukinni kolefnisbindingu þannig að Ísland geti staðið við markmið Parísarsamningsins til 2030 og markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040.

Á meðal þess sem lagt er til í áætluninni er átak í kolefnisbindingu, þar sem skógrækt og landgræðsla gegna lykilhlutverki. Í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar eru m.a. gerðar athugasemdir við þennan lið áætlunarinnar.

„Þá benda samtökin á að uppgræðsla lands getur haft mikil sjónræn áhrif og skaðað víðernisímynd Íslands í hugum erlendra ferðamanna.“

Einnig fara samtökin fram á að hlutfall fjárframlags til aðgerða í loftslagsmálum verði jafnt á milli rafvæðingar í samgöngum og kolefnisbindingar. Þá lýsa samtökin yfir óánægju með hækkun kolefnisgjalds og segja hækkunina „hreina og klára skattheimtu“.

Umsóknarfrestur um aðgerðaáætlunina rennur út þann 15. nóvember næstkomandi. Áætlunin verður uppfærð í ljósi ábendinga og mun önnur útgáfa koma út á næsta ári.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.