Enski boltinn

Skildi símann eftir á ströndinni og gekk í hafið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Nade í leik með Sheff. Utd.
Nade í leik með Sheff. Utd. vísir/getty
Sífellt fleiri knattspyrnumenn á Bretlandseyjum stíga nú fram og greina frá baráttu sinni við þunglyndi. Sá nýjasti reyndi að fyrirfara sér fyrir fjórum árum.

Sá heitir Christian Nade og spilaði með Hearts, Raith Rovers, Sheff. Utd og Dumbarton á ferlinum. Hann barðist lengi við þunglyndi.

„Ég vissi að þessi tilfinning væri ekki eðlileg og í dag veit ég að þetta var þunglyndi sem ég barðist við allan tímann,“ segir Nade og rifjar upp daginn örlagaríka er hann ákvað að binda enda á líf sitt.

„Ég var mjög einmana þetta kvöld. Þurfti að tala við einhvern en vildi ekki trufla fjölskylduna mína. Ég vildi ekki vera baggi á öðrum lengur og ákvað bara að binda enda á þetta. Þetta var ekki skipulagt. Þetta var bara eitthvað sem gerðist þetta kvöld.

„Ég var á mjög dimmum stað og fór út á strönd nálægt heimili mínu. Ég sendi sms á fjölskyldumeðlimi þar sem ég reyndi að útskýra mitt mál. Bað þau að fyrirgefa mér og sagðist elska þau. Ég skildi svo símann eftir á ströndinni og gekk í hafið.

„Ég var mjög lengi út í. Svo heyrði ég í einhverjum og fannst einhver taka í öxlina á mér. Það var samt enginn þarna. Ég sá samt að lokum að vinur minn var á ströndinni. Ég labbaði þá til baka og fór upp í sjúkrabíl. Bróðir minn hafði haft samband við þennan vin minn og hann fann mig.

„Ég skammaðist mín er ég sá vininn. Að ég liti aumingjalega út í hans augum. Hann leit upp til mín. Það vill enginn líta þannig út. Við ræddum þetta aldrei aftur fyrr en nú.“

Nánar má lesa um Nade hér.



Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Nánari upplýsingar hér.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×