Innlent

Neitar að skrifa undir kjarasamning nema búsetuöryggi leigjenda verði tryggt

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir að hann muni ekki skrifa undir nýja kjarasamninga fyrir hönd VR nema breytingar verði gerðar á lögum sem veiti leigjendum betri vernd og búsetuöryggi.

„Ég mun ekki skrifa undir kjarasamning nema staða þessara hópa verði tryggð. Ekki bara hvað framfærslu varðar heldur einnig búsetuöryggi. Það er ekki boðlegt í siðuðu samfélagi að búsetuöryggi hjá fjölskyldu sé þrír mánuðir og henni bjóðist aðeins tólf mánaða samningur í senn,“ segir Ragnar.

Ragnar segir að hann mun ekki skrifa undir kjarasamning nema hagsmunir leigjenda verði tryggðir með lagabreytingu. Í 17. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur segir að óheimilt sé að hefja vinnustöðvun „ef tilgangur vinnustöðvunarinnar er að þvinga stjórnvöld til að framkvæma athafnir, sem þeim lögum samkvæmt ekki ber að framkvæma.“

Gengur það ekki í berhögg við þetta ákvæði laganna að neita að skrifa undir kjarasamning nema Alþingi samþykki í lagabreytingar til að tryggja hagsmuni leigjenda?

„Það er algjörlega undir mér sjálfum komið hvað ég skrifa undir og hvað ekki. Ég held að það sé af og frá. Við sem stéttarfélag samþykkjum bara þá samninga sem við erum sátt við. SA eru okkar viðsemjendur og ég sé ekkert athugavert við það að við gerum þá kröfu um að þessir hópar verði varðir í næstu kjarasamningum. Eins og ég sagði, ég mun ekki skrifa undir kjarasamning nema þessum hópum verði komið til bjargar, fólki á leigumarkaði og ég mun standa við það,“ segir Ragnar. 

En getur viðsemjandinn komið þessum hópi til bjargar? Þú talar um lagabreytingar en það er á forræði löggjafans að ráðast í þær.

„Ég held að þegar kemur að húsnæðismálum þá erum við mjög samstíga með Samtökum atvinnulífsins, bæði með uppbyggingu á húsnæði og við erum að gera kröfu um aðkomu stjórnvalda og sveitarfélaga að þjóðarátaki í húsnæðismálum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×