Enski boltinn

Hetjuleg frammistaða Lampard dugði ekki til gegn Chelsea │Tottenham og Arsenal áfram

Anton Ingi Leifsson skrifar
Lampard snéri aftur á sinn gamla heimavöll í kvöld.
Lampard snéri aftur á sinn gamla heimavöll í kvöld. vísir/getty
Tottenham, Chelsea og Arsenal eru komin áfram í 8-liða úrslit enska deildarbikarins, Carabao-Cup, eftir leiki kvöldsins.

Arsenal marði 2-1 sigur á Blackpool á heimavelli.  Stephan Lichtsteiner kom Arsenal yfir á 33. mínútu og sautján mínútum síðar tvöfaldaði Emile Smith-Rowe forystuna.

Sex mínútum síðar fékk miðjumaðurinn Matteo Guendouzi sitt annað gula spjald og þar með rautt. Við það efldust gestirnir frá Blackpool og þeir minnkuðu muninn á 66. mínútu með marki Paudie O'Connor.

Arsenal hélt þó út og er komið áfram í átta liða úrslitin eins og grannar sínar í Tottenham sem kláruðu West Ham, 3-1, í grannaslag á Ólympíuleikvanginum í London.

Son Heung-min kom Tottenham yfir á sextándu mínútu og hann tvöfaldaði svo forystuna á 54. mínútu áður en Lucas Perz minnkaði muninn fyrir West Ham á 71. mínútu.

Fjórum mínútum síðar gerðu Tottenham hins vegar út um leikinn er framherjinn Fernado Llorente skoraði og tryggði Tottenham 3-1 sigur.

Það var mikið fjör á Stamford Bridge er Frank Lampard snéri á sinn gamla heimavöll en Frank stýrir nú liði Derby í B-deildinni. Chelsea hafði betur, 3-2, í frábærum leik.

Derby skoraði fyrstu fjögur mörk leiksins. Þeir skoruðu tvö mörk í eigið mark og svo tvö mörk í markið hjá Chelsea en Cesc Fabregas skoraði þriðja mark Chelsea í stórkostlegum fyrri hálfleik skömmu fyrir hlé.

Ekki urðu mörkin fleiri í síðari hálfleik og ekki náði Lampard að slá út Chelsea en Derby sló út Manchester United í síðustu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×