Erlent

Leik­maður í heims­meistara­liði Ítala dæmdur í mafíu­máli

Atli Ísleifsson skrifar
Vincenzo Iaquinta kyssir bikarinn eftir að Ítalir unni Frakka í úrslitaleik HM í Berlín árið 2006.
Vincenzo Iaquinta kyssir bikarinn eftir að Ítalir unni Frakka í úrslitaleik HM í Berlín árið 2006. Getty/Andreas Rentz
Dómstóll á Ítalíu hefur dæmt knattspyrnumanninn Vincenzo Iaquinta í tveggja ára fangelsi fyrir brot gegn skotvopnalögum í umfangsmiklu máli sem snýr að skipulagðri glæpastarfsemi í landinu. Iaquinta spilaði meðal annars með stórliði Juventus og var í heimsmeistaraliði Ítalíu árið 2006. 

Hinn 38 ára Iaquinta var í hópi 148 manna sem réttað var yfir en sakborningar voru ákærðir fyrir tengsl við 'Ndrangheta-mafíuna.

Dómarinn sýknaði Iaquinta af ákæru um að tengjast mafíunni, en faðir hans var fundinn sekur var dæmdur til nítján ára fangelsisvistar. Alls voru rúmlega 120 manns fundnir sekir í málinu, að því er fram kemur í grein BBC.

Kom vopnum í hendur föður síns

Vincenzo Iaquinta var þó fundinn sekur um að hafa komið tveimur skotvopnum í hendur föður síns með ólöglegum hætti, en dómari hafði áður, í öðru máli, bannað Iaquinta eldri að vera með skotvopn í sinni vörslu.

„Fáránlegt! Skömm!“ hrópuðu þeir feðgar þegar dómarinn kvað upp sinn dóm.

Lög á Ítalíu kveða á um að sakborningar geti áfrýjað í tvígang áður en dómur er staðfestur. Reuters greinir frá því að ólíklegt sé að Iaquinta yngri komi til með að þurfa að afplána dóminn.

Sex þúsund liðsmenn

Bandaríska alríkislögreglan FBI áætlar að liðsmenn 'Ndrangheta-mafíunnar, sem er starfandi í Calabria, einu fátækasta héraði Ítalíu, séu um sex þúsund talsins.

Framherjinn Iaquinta sló í gegn með liði Udinese þar sem hann spilaði á árunum 2000 til 2007. Þá gekk hann til liðs við Juventus þar sem hann spilaði til ársins 2013. Hann spilaði alls fjörutíu leiki með ítalska landsliðinu og skoraði í þeim sex mörk. Hann kom inn á sem vara maður í úrslitaleik Ítalíu og Frakka á HM 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×