Erlent

Forsætisráðherra Ástralíu bað fórnarlömb barnaníðs afsökunar

Kjartan Kjartansson skrifar
Fórnarlömb kynferðisofbeldis héldust í hendur þegar þau hlýddu á forsætisráðherrann biðja þau afsökunar. Mörg þeirra lifðu ekki nógu lengi til að heyra afsökunarbeiðnina, fjöldi er sagður hafa stytt sér aldur.
Fórnarlömb kynferðisofbeldis héldust í hendur þegar þau hlýddu á forsætisráðherrann biðja þau afsökunar. Mörg þeirra lifðu ekki nógu lengi til að heyra afsökunarbeiðnina, fjöldi er sagður hafa stytt sér aldur. Vísir/EPA
Tugir þúsunda manna sem urðu fyrir kynferðisofbeldi sem börn fengu opinbera afsökunarbeiðni frá Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, fyrir hönd yfirvalda í dag. Opinber rannsókn leiddi í ljós að þúsundir urðu fyrir kynferðisofbeldi innan veggja fjölda ríkisstofnana undanfarna áratugi.

Ofbeldið fór fram í kirkjum, skólum og íþróttafélögum. Rannsóknin stóð yfir í fimm ár en henni lauk í desember. Niðurstaðan var að tugþúsundum barna hafi verið misþyrmt kynferðislega, þar á meðal af prestum og kennurum.

„Í dag viðurkennum við loks og tökumst á við glötuð óp barnanna okkar. Við verðum að vera nógu auðmjúk til að falla fram fyrir fætur þeirra sem við yfirgáfum og grátbiðja þau um fyrirgefningu,“ sagði Morrison í ræðu á ástralska þinginu.

Fjöldi fórnarlamba kom saman til að hlýða á orð forsætisráðherrans.

„Það gaf mér mikla huggun að heyra [afsökunarbeiðnina]. Við lifðum að minnsta kosti nógu lengi til að heyra hana,“ sagði eitt þeirra við breska ríkisútvarpið BBC.

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar hafa þó verið gagnrýnd að mörgu leyti, þar á meðal sanngirnisbætur sem fórnarlömbum hafa verið boðnar. Bæturnar eru sagðar lágar og erfitt að fá þær. Þá hafa fórnarlömbin gagnrýnt að ríkisstjórnin hafi ekki tekið upp tillögur sem settar voru fram í rannsókninni, þar á meðal um að gera það að lagalegri skyldu að tilkynna um misnotkun.

Kaþólska kirkjan hefur sérstaklega barist gegn þeirri tillögu. Í ágúst lýsti hún því yfir að hún myndi ekki gera brestum að rjúfa trúnað um játningar. Rannsóknin leiddi í ljós að flestir brotamannanna komu úr röðum kirkjunnar.


Tengdar fréttir

Kerfisbundið barnaníð í Ástralíu

Skýrsla upp úr fimm ára rannsókn ástralskrar rannsóknarnefndar birtist í gær. Hún sýnir fram á að alvarlegum brotum hafi verið leyft að viðgangast innan helstu samfélagsstofnana Ástralíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×