Erlent

Grunur um að bréfsprengja hafi verið send Soros

Kjartan Kjartansson skrifar
George Soros er vondi kallinn í augum margra hægriöfgamanna.
George Soros er vondi kallinn í augum margra hægriöfgamanna. Vísir/Getty
Sprengjusveit eyddi sendingu sem grunur leikur á að hafi verið bréfsprengja sem send var á heimili milljarðamæringsins George Soros í New York í Bandaríkjunum. Soros hefur verið skotspónn hægriöfgamanna sem telja hann að baki flestu þess sem þeim mislíkar.

Bandaríska alríkislögreglan FBI rannsakar nú sendinguna. Aðstoðarmaður Soros fann bréfið í pósthólfi hans í bænum Bedford í Westchester-sýslu í New York-ríki í gær. Þegar hann opnaði það kom í ljós það sem virtist vera sprengja.

Farið var með það í skóglendi í nágrenninu þar sem því var eytt. Soros var ekki heima þegar uppákoman átti sér stað, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Soros hefur stutt ýmis frjálslynd verkefni víða um heim, meðal annars á sviði mannréttinda og lýðræðis. Í Bandaríkjunum hefur hann stutt Demókrataflokkinn og forsetaframbjóðendur þeirra.

Fyrir vikið hafa samsæriskenningasmiðir af hægri vængnum rægt Soros og haldið því fram að hann hafi skipulagt alls kyns atburði á bak við tjöldin. Þannig telja þeir að Soros greiði fólki til að mótmæla og standi á einhvern hátt fyrir straumi flóttamanna til Evrópu.

Samsæriskenningarnar hafa verið á lofti um að Soros hafi staðið að baki fjölmennri kvennagöngu sem beindist að miklu leyti gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta og skipulagt ofbeldisverk í borginni Charlottesville til þess að koma óorði á hægrimenn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×