Viðskipti innlent

Bjórþyrstir dátar þurrkuðu upp miðborg Reykjavíkur

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það er draumur að vera með dáta og drekka fram á nótt.
Það er draumur að vera með dáta og drekka fram á nótt. Vísir/Vilhelm
Vertar í miðborg Reykjavíkur höfðu vart undan við að hella bjór ofan í botnlausa bandaríska hermenn, sem settu svip sinn á borgina í liðinni viku. Eiríkur Jónsson segir ófremdarástand hafa ríkt í miðborginni, veitingamenn hafi verið illa undirbúnir fyrir innrás hermannanna sem þömbuðu hvern þann spíra sem á vegi þeirra varð.

„Já, þetta var svakalegt. Þetta var ótrúlegur fjöldi,“ segir Nuno Alexandre Bentim Servo, einn eigenda Sæta Svínsins í Hafnarstræti, aðspurður um hermannaflóðið. Hann áætlar að á bilinu 6 til 7 þúsund dátar hafi marserað á milli kráa miðborgarinnar þegar mest var, í bland við þúsundir annarra erlendra ferðamanna sem enn setja svip sinn á næturlífið.

Þorsti dátanna var með slíkum ólíkindum að bjórdælur á knæpum borgarinnar höfðu vart undan. Þannig kláruðust bjórbirgðirnar ekki aðeins á Sæta svíninu heldur jafnframt á fleiri krám vestan Lækjargötu - til að mynda á American Bar við Austurstræti. Því hafi kráareigendur þurft að ræsa út bakvakt Ölgerðarinnar sem flutti hundruð bjórkúta til miðborgarinnar svo að svala mætti þorsta hermannanna. Vísir hringdi í Ölgerðina í morgun sem staðfesti að álagið hafi verið mikið um helgina. „Þeir voru duglegir, blessaðir“ segir starfsmaður Ölgerðarinnar.

Ekki einu sinni Sigríður Klingberg gat séð fyrir bjórþorsta hermannanna. Hér sést Sigga við bingóstjórnun á Sæta svíninu.Fréttablaðið/stefán
Drykkja hermannanna var þó ekki við bundin við helgina. Nuno segir að þeir hafi í raun setið að sumbli alveg frá miðvikudegi fram á sunnudag - og skipti þá engu máli hvort það væri dagur eða kvöld. Þeim hafi verið gert að skila sér til skips fyrir miðnætti og virðast hermennirnir hafa nýtt tímann í landi til að væta kverkarnar.

Dátarnir drukku einna helst íslenskan bjór í bæjarferðum sínum og segir Nuno að þeir hafi verið duglegir við að smakka staðbundnar tegundir. Þá segir hann að stéttaskiptingin innan hersins hafi verið bersýnileg í staðarvali hermannanna. Þeir sem eldri eru og ofar í virðingarröðinni lögðu einna helst leið sína á veitingastaði borgarinnar. Óbreyttir hermenn herjuðu hins vegar á barina og segir Nuno að svo hafi virst sem þeir háttsettu hafi haft lítinn áhuga á að blanda geði við undirmenn sína.

Þrátt fyrir hermannafjöldann hér á landi bliknar hann í samanburði við þær tugþúsundir dáta sem koma saman í Noregi til æfinga fyrir Atlantshafsbandalagið. Nuno getur ekki annað en vorkennt norskum starfsbræðrum sínum eftir átök síðustu daga. „Mér skilst að á aðalæfingunni í Noregi verði hermennirnir líklega um 40 þúsund. Það þarf því líklega að sækja bjór til Finnlands eða eitthvað,“ segir Nuno léttur í bragði.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×