Innlent

Segir fólk fá lægri greiðslur úr lífeyrissjóðum þar sem konur eru í meirihluta

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Eftirlaunagreiðslur þeirra sem greiða í lífeyrissjóð þar sem konur eru í meirihluta eru að jafnaði lægri en hjá þeim sem greiða í sjóði þar sem kynjahlutföllin eru jafnari.

Kynjaskipting milli lífeyrissjóða hér á landi er mjög ólík en hún skiptir miklu máli fyrir eftirlaunagreiðslur sjóðsfélaga. Skýr dæmi um þetta eru sjóðir eins og Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga þar sem konur eru langflestar og síðan sjóðir eins og Eftirlaunasjóður FÍA og Lífsverk þar sem karlar eru í meirihluta. Þetta kemur fram í nýlegri rannsókn sem Gylfi Magnússon dósent við Háskóla Íslands gerði.

„Hóparnir sem standa að baki hverjum lífeyrissjóði eru mjög ólíkir. Sumir eru fyrst og fremst að þjóna konum og aðrir körlum. Þá er líka mismunandi örorkutíðni milli sjóða. Þetta hefur áhrif á eftirlaunagreiðslur ásamt ávöxtun sjóðanna. Þannig að það er ekki eins gott að vera í sjóðum sem eru með mjög langlífa sjóðsfélaga,“ segir Gylfi. 

Sem á frekar við um konur sem lifa að meðaltali um tveimur árum lengur en karlar. Gylfi segir að karl sem greiðir í lífeyrissjóð þar sem konur eru í meirihluta fái þannig lægri greiðslur en ella.

„Hann dregur eiginlega svarta Pétur. Að öðru jöfnu ætti hann að fá lægri lífeyri en karl sem greiðir í sjóð þar sem eru fyrst og fremst karlar,“ segir Gylfi. 

Hann segir að oft hafi fólk hafi ekki val um í hvaða lífeyrissjóð það greiðir. En hvað á að hafa í huga geti fólk valið?

„Það getur verið skynsamlegt að veðja á sjóð þar sem sjóðsfélagar eru ekki mjög langlífir, eins kaldrannalegt og það hljómar. Þá er gott að geta dreift greiðslum á nokkra sjóði og dreifa þannig áhættu,“ segir Gylfi að lokum. 

 

                       



 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×