Handbolti

Rúnar: Getumunurinn klár frá upphafi

Benedikt Grétarsson skrifar
Rúnar átti fínan leik í kvöld.
Rúnar átti fínan leik í kvöld. vísir/daníe
Stórskyttan Rúnar Kárason byrjaði á bekknum í kvöld en kom sterkur inn og skoraði fimm falleg mörk. Getumunurinn á liðunum kom berlega í ljós í seinni hálfleik, sem strákarnir unnu með 11 marka mun.

„Ég vil meina að getumunurinn hafi verið klár frá upphafi en stundum er þetta snúið þegar maður keppir gegn liði sem maður hefur aldrei mætt áður. Það má ekki gleyma því að þeir eru auðvitað að gera sitt besta og við vorum smá tíma að læra inn á þá og fá okkar hluti til að virka,“ sagði Rúnar eftir leik.

„Við skorum 17 mörk í fyrri hálfleik, sem er ógeðslega mikið en þeir skora 13 mörk sem er bara of mikið fyrir þetta lið. Að sama skapi þreytast þeir mikið og þurfa að hafa mikið fyrir hlutunum. Það kom best í ljós í seinni hálfleik, þegar við náðum að loka alveg á þeirra aðgerðir á löngum köflum.“

„Vörnin skilaði okkur einföldum mörkum og við vinnum leikinn stórt. Það er eitthvað sem gerist ekkert á 10 mínútum. Við vinnum fyrir þessum stóra sigri allan leikinn og leystum þetta verkefni vel í dag.“

Rúnar átti fína innkomu og virkar í góðu formi. Blaðamaður hafði á orði að skyttan virkaði töluvert rennilegri en undanfarin ár.

„Jú jú, ég fékk náttúrulega matareitun á æfingamóti í Serbíu í sumar og missti bæði vöðva og þyngd þar. En ég æfði markvisst í sumar og gerði hlutina aðeins öðruvísi en vanalega. Það er greinilega að virka,“ sagði spengilegur og brosandi Rúnar Kárason að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×