Innlent

Framkvæmdastjóri Manngildis furðar sig á rannsókn lögreglu

Birgir Olgeirsson skrifar
Aðsetur starsfmanna Manngildis í Auðbrekku.
Aðsetur starsfmanna Manngildis í Auðbrekku. Vísir/Jói K

Ingimar Skúli Sævarsson, framkvæmdastjóri Manngildis, segir lögreglu hafa farið offari í rannsókn á skjalafalsi, misbeitt valdi sínu og ætlar hann að fara fram á rannsókn á vinnubrögðum embættisins.

Þetta segir Ingimar Skúli í yfirlýsingu sem hann hefur sent á fjölmiðla en hann var einn af þeim tíu sem handtekinn var í aðgerðum lögreglu í gær vegna rannsóknar á skjalafalsi.

Grunur lögreglu er sá að fölsuð vegabréf hafi verið notuð til að útvega níu erlendum karlmönnum kennitölu hjá Þjóðskrá en Ingimar, sem var sleppt að lokinni yfirheyrslu í gær, neitar að hafa nokkra vitneskju um málið.

Einn var úrskurðaður í gæsluvarðhald en hinum níu var sleppt lausum að lokinni yfirheyrslu en þeir þurfa að sinna tilkynningarskyldu til lögreglu og mega ekki fara úr landi.

Í yfirlýsingunni segist Ingimar hafa fengið þær upplýsingar um miðjan september frá Þjóðskrá að skilríki eins erlends starfsmanns Manngildis þætti grunsamlegt og hefði lögreglu verið gert viðvart. Hann segist hafa þrýst á Þjóðskrá að ganga úr skugga um þetta því annars gæti hann ekki haft manninn í vinnu og að maðurinn yrði að fara úr landi.

Ingimar segir Manngildi hafa fengið staðfestingu frá Þjóðskrá 19. september síðastliðinn að skráning þessa manns og nokkurra annarra erlendra starfsmanna hefðu verið samþykktar og af því hefði mátt ráða að engar frekari athugasemdir hefðu verið gerðar við skilríkin.

„Það kom því ekki lítið á óvart þegar tugir lögreglumanna ruddust inn á heimili starfsmanna og annarra leigjenda hjá Manngildi eldsnemma í gærmorgun. Engin ástæða var fyrir þessari fantalegu innrás sem olli skelfingu og vanlíðan íbúa og annarra gesta. Hvers vegna kallaði lögreglan viðkomandi einstaklinga ekki einfaldlega til yfirheyrslu á lögreglustöð eða sótti þá í vinnuna? Þurfti virkilega að kalla tugi lögreglumanna út á næturvakt í bófahasar til að skoða mál sem lá fyrir á skrifborði á lögreglustöðinni?“ spyr Ingimar í yfirlýsingunni.

Hann telur ljóst að lögregla vissi vel, eftir ábendingar frá Þjóðskrá í september, að skilríki eins eða fleiri útlendinga væru röng eða fölsuð.

„Hvers vegna gerði lögreglan ekkert í málinu þá og kallaði eftir skýringum? Þess í stað voru umsóknir um skráningu samþykktar, eins og til að leiða viðkomandi starfsmenn og vinnuveitanda í gildru. Lögreglan hefur farið fullkomlega offari og misbeitt valdi sínu í þessu máli og mun ég fara fram á rannsókn á vinnubrögðum embættisins.“

Hann er þess fullviss að lögreglan hafi vitað af athugun sinni að hann hafði ekkert með þessi skilríkismál að gera.

„Enda sjá starfsmennirnir sjálfir um að framvísa þeim hjá Þjóðskrá. Engu að síður heldur lögreglan því fram í fjölmiðlum að rannsókn á meintri aðild minni verði haldið áfram, þó svo að hún hafi allar upplýsingar um að sú aðkoma er engin.“


Tengdar fréttir

Einn af tíu í gæsluvarðhaldi

Farið hefur verið fram á gæsluvarðhald yfir erlendum karlmanni sem handtekinn var í umfangsmiklum aðgerðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×