Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - KR 85-79 | Skotsýning Reggie tryggði Keflavík sigurinn á KR

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson í Blue-höllinni í Keflavík skrifar
Craion reyndist sínum gömlu félögum erfiður í kvöld
Craion reyndist sínum gömlu félögum erfiður í kvöld RÚV
Keflvíkingar fengu Íslandsmeistara KR í heimsókn í kvöld í Dominos deild karla í körfubolta og úr varð hörku spennandi viðureign.

 

Liðin skiptust á að leiða leikinn og var allt í járnum. KR byrjuðu örlítið betur en heimamenn og leiddu eftir fyrsta leikhluta, 24-28.

 

Í öðrum leikhluta voru það Keflvíkingar sem voru örlítið sterkari og leiddu þeir með þremur stigum er flautað var til hálfleiks, 45-42.

 

Mikil barátta var á milli Julian Boyd og Michael Craion en Boyd fékk sína þriðju villu undir lok fyrri hálfleiks. Þurftu KR-ingar því að skipta og láta Sigurð Þorvaldsson dekka Craion í seinni hálfleik. Boyd og Craion áttu báðir flottan leik í kvöld.

 

Seinni hálfleikur var ekki minna spennandi en sá fyrri. Um miðbik þriðja leikhluta náðu KR-ingar að jafna leikinn en þrátt fyrir mörg tækifæri, komust þeir ekki yfir. Fyrir lokaleikhlutann leiddu Keflvíkingar með tveimur stigum, 62-60.

 

Íslandsmeistararnir byrjuðu af miklum krafti í fjórða og síðasta leikhlutanum og komust snemma yfir. Keflvíkingar klúðruðu nokkrum sóknum í röð og virtust þeir ætla að missa leikinn frá sér.

 

En þá kom Reggie Dupree til sögunnar og kveikti í Keflvíkingum með þremur þriggja stiga körfum í röð og skyndilega voru Keflvíkingar komnir yfir, stemmningin þeirra meginn, bæði á vellinum og í stúkunni.

 

Reyndist það of mikið fyrir Íslandsmeistarana og sigldu Keflvíkingar sínum fyrsta sigri heim á lokasprettinum.

 

Afhverju vann Keflavík?

 

Leikurinn hefði alveg getað dottið báðum meginn hér í kvöld en erfitt er að líta framhjá skotsýningu Reggie Dupree í fjórða leikhluta. Þrjár þriggja stiga körfur í röð kom með gríðarlega mikla stemmningu til Keflvíkinga og má segja að það hafi skilað þeim sigri í kvöld.

 

Hverjir stóðu uppúr?

 

Hjá Keflvíkingum var Michael Craion þeirra besti maður. Hann skoraði 27 stig og var gríðarlega öflugur á báðum endum vallarins. Var með fjóra stolna bolta, fimm fráköst og sex stoðsendingar. Virtist virkilega vilja vinna þennan leik í kvöld enda að spila gegn sínum gömlu félögum.

 

Julian Boyd var besti maður KR í kvöld og endaði hann með 31 stig. Hann var flottur sóknarlega en átti í vandræðum með Craion varnarlega í fyrri hálfleik. Ekki sá fyrsti til þess að vera í vandræðum með hann. Klikkaði hins vegar á nokkrum auðveldum skotum í leiknum, en heilt yfir flottur leikur hjá honum.

 

Hvað gekk illa?

 

Dino Stipcic, króatíski leikmaður KR átti alls ekki góðan leik í kvöld. Skoraði aðeins tvö stig og komu þau ekki fyrr en um miðbik þriðja leikhluta. Skömmu eftir körfuna þurfti hann að yfirgefa völlinn vegna nefbrots. Spurning hvernig framhaldið verður hjá honum hjá KR eftir þennan leik.

 

Hvað gerist næst?

 

Keflvíkingar heimsækja nágranna sína í Grindavík í næstu umferð á meðan KR fær Þór Þorlákshöfn í heimsókn í Vesturbæinn.

 

Sverrir Þór: Fengum svakalega skotsýningu frá Reggie Dupree

 

Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur var að vonum kampakátur með sigur sinna manna á Íslandsmeisturum KR í Dominos deild karla í körfubolta í kvöld. Leikurinn var æsispennandi allt frá upphafi til enda og hefði sigurinn getað dottið báðum meginn.

 

„Þetta var hörkuleikur. Við vorum góðir á köflum en við vorum að gera fullt af mistökum varnarlega og gefa þeim auðveld skot. Þeir eru auðvitað með svo góða leikmenn að þeir refsa fyrir það. Síðan smellur þetta hjá okkur. Við förum að vinna betur saman varnarlega og fáum svakalega skotsýningu frá Reggie Dupree sem er geggjuð skot og á að skjóta meira, hann veit það best sjálfur. Hann setti þrjá í röð og setti tóninn. Margt jákvætt í þessu en fullt af hlutum sem við getum lagað.“

 

Reggie átti ekki frábæran leik framan af í kvöld en hrökk svo hressilega í gang um miðbik fjórða leikhluta og kom Keflavík yfir með þremur þristum í röð. Þristarnir komu með mikla stemmningu inn í Keflavíkurliðið, sem og í stuðningsmenn liðsins og sigldu þeir sigrinum heim í kjölfarið. Sverrir segir það hafa verið mikilvægt að fá Reggie í gang í lokaleikhlutanum.

 

„Algjörlega. Við vorum rosalega mikið að leita af Craion. Hann var svolítið óheppinn, það var að leka svolítið upp úr hjá honum og við gerðumst hálfgerðir áhorfendur í stað þess að finna möguleika fyrir skot.“

 

Leikjaprógram Keflvíkinga í upphafi tímabils er gríðarlega erfitt. Þeir töpuðu naumlega gegn Njarðvík í fyrstu umferð og lentu svo aftur í hörkuleik í kvöld. Næstu andstæðingar eru svo Grindavík, Stjarnan og ÍR. Sverrir segir það mikilvægt að ná í svona góðan sigur í þessari erfiðu törn.

 

„Að sjálfsögðu. Það var sárt að tapa inn í Njarðvík í leik sem vantaði örlítið upp á að við hefðum klárað þá. Svo er aftur svona núna. Við vorum undir þegar nokkrar mínútur voru eftir en náum að komast yfir og landa þessu. Auðvitað er það mikilvægt.“

 

Javier Mugica Seco, nýjasti leikmaður Keflvíkinga gat ekki leikið með liðinu í kvöld þar sem hann er ekki kominn með leikheimild. Spánverjinn gekk til liðs við félagið á dögunum en hann fékk ekki leikheimild þar sem frídagur var á Spáni í dag og allar skrifstofur lokaðar.

 

„Þetta er tveggja metra strákur, fjölhæfur og mikill reynslubolti. Hann er bara búinn að vera á einni æfingu með okkur en hefur átt flottan ferill. Ég er bjartsýnn á að hann komi hingað inn og hjálpi okkur helling.“

 

Ingi Þór: Ég skil ekki hvernig við hentum þessu frá okkur

 

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Íslandsmeistara KR var hundfúll eftir tap sinna manna gegn Keflavík í kvöld. KR-ingar voru yfir um miðbik fjórða leikhluta en þrír þristar Reggie Dupree kom Keflvíkingum yfir og tryggði þeim að lokum sigurinn.

 

„Ég skil ekki hvernig við hentum þessu frá okkur. Við leyfðum Reggie að fá fyrsta þristinn galopinn og það snéri mómentinu fyrir þá og annar þristurinn snéri algjörlega leiknum við. Við vorum í fínni stöðu. Ég held að íþróttin hafi sýnt það með lokakaflanum að þetta er leikur áhlaupa og þeir náðu algjörlega áhlaupinu í lokinn.“

 

Ingi Þór segir að litlu mistökin hafi kostað KR-inga sigurinn í Blue höllinni í Keflavík í kvöld.

 

„Það eru bara litlu mistökin hjá okkur eins og þegar Reggie fær galopinn þrist. Það eru svona mistök sem skera úr, varnarmistök. Svo sóttum við kannski ekki nægilega sterkt á körfuna síðustu tvær mínúturnar. Við settum okkur í skot sem voru kannski ekkert slæm skot. Við hefðum verið hoppandi kátir ef við hefðum sett eitt af þessum skotum niður. Við komum hingað til þess að vinna þennan leik og við erum hundfúlir með að hafa tapað þessu. Mér finnst við hafa tapað þessu því við vorum með þennan leik í höndunum. Nú er bara áfram gakk.“

 

Heilt yfir var Ingi Þór þó ágætlega sáttur með spilamennsku Íslandsmeistaranna og segir hann að hún fari batnandi.

 

„Hún var betri í dag en hefur verið undanfarið. Ég tek það út úr þessu. Við erum að búa til nýtt lið og erum nánast án Króatans [Dino Stipcic] í dag. Hann fer að vísu nefbrotinn út. En við þurfum að fá framlag frá honum. Annars vorum við að fá framlag frá öllum.“

 

Króatinn Dino Stipcic átti ekki góðan leik hjá KR í kvöld en hann skoraði aðeins tvö stig í leiknum. Þau komu um miðbik þriðja leikhluta en skömmu síðar rölti hann útaf eftir að hafa meitt sig í nefinu. Ingi Þór greindi frá því að hann hafi nefbrotnað.

 

„Það var dæmt uppkast hérna einhverja hluta vegna, en hann var sleginn í andlitið og hann nefbrotnaði. Hvernig menn fá uppkast út úr því er einhver nýr pakki.“

 

Gunnar Ólafsson: Mér finnst alltaf gaman að vinna, sama hvað

 

„Mjög góð. Þetta er ógeðslega gaman. Þetta var virkilega góður liðssigur,“ voru fyrstu viðbrögð Gunnars Ólafssonar eftir sigurinn á KR í kvöld í Dominos deildinni í körfubolta.

 

Gunnar segir það alltaf skemmtilegt að vinna svona háspennuleiki líkt og þennann.

 

„Jú það er auðvitað skemmtilegt. Mér finnst alltaf gaman að vinna, sama hvað. En það er ótrúlega gaman að spila svona spennandi leiki og líka þegar áhorfendurnir eru svona góðir.“

 

Reggie Dupree setti þrjá risa þrista sem kom Keflvíkingum yfir í fjórða leikhluta og fór langleiðina með að tryggja þeim sigurinn. Gunnar var að vonum sáttur með sinn mann.

 

„Mér fannst hann ekki klúðra skoti. Ég gaf meira að segja upp einu skoti og gaf á hann og var brjálaður að hann skaut ekki. En hann keyrði þá á körfuna og fékk villu. Hann gaf okkur þetta spark í rassinn í seinni hálfleik sem við þurftum.“

 

KR byrjaði lokaleikhlutann af krafti og komst fimm stigum yfir í upphafi þess en þrátt fyrir það fór ekkert um Gunnar.

 

„Nei nei maður efast aldrei. Maður þarf að berjast í gegnum þetta og halda haus. Ég vissi að ef við myndum halda áfram að spila sömu vörn, þá myndum við loka þessu.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira