Golf

Valdís Þóra reynir við LPGA- mótaröðina

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Valdís Þóra hefur varið undanförnum vikum vestan hafs til að undirbúa sig fyrir úrtökumótið.
Valdís Þóra hefur varið undanförnum vikum vestan hafs til að undirbúa sig fyrir úrtökumótið. Vísir/Getty
Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr GL, hefur leik á öðru stigi úrtökumótsins fyrir LPGA-mótaröðina í Flórída í Bandaríkjunum í dag. Fer mótið fram á Plantation Golf and Country Club í bænum Venice og eru 195 kylfingar skráðir til leiks en efstu 25 kylfingarnir komast á lokastigið.

Er þetta þriðja árið í röð sem Valdís reynir að komast inn á LPGA-mótaröðina og í fyrsta sinn sem hún keppir á öðru stigi. Hefur hún leikið á Evrópumótaröðinni, næststerkustu mótaröð heims, á undanförnum árum með góðum árangri en reynir nú að komast inn á þá sterkustu.

Valdís hefur eytt undanförnum vikum í Bandaríkjunum til að undirbúa mótið og ekki tekið þátt í mótum á Evrópumótaröðinni enda hefur hún þegar tryggt sér þátttökurétt á næsta ári.

Komist Valdís áfram fær hún þátttökurétt í þriðja og síðasta úrtöku­mótinu sem fram fer í lok mánaðar þegar Ólafía Þórunn Kristinsdóttir mun sömuleiðis reyna að endurnýja þátttökurétt sinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×