Körfubolti

Clinch búinn að semja við Grindavík

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Lewis Clinch Jr. fór með Grindavík í úrslitarimmuna vorið 2017
Lewis Clinch Jr. fór með Grindavík í úrslitarimmuna vorið 2017 Vísir/Eyþór
Lewis Clinch hefur samið við Grindavík um að spila með liðinu í Domino's deild karla samkvæmt heimildum íþróttadeildar.

Clinch kemur til liðsins í stað Terrell Vinson sem var látinn fara frá Grindavík. Vinson byrjaði ágætlega með Grindvíkingum en meiddist illa í leik þeirra við Skallagrím á fimmtudaginn og í gær bárust fréttir af því að samningi hans hefði verið sagt upp.

Clinch þekkir vel til í Grindavík, hann spilaði með liðinu tímabilið 2016-17 og 2013-14. Hann var með 21,3 stig að meðalatali í 35 leikjum seinni veturinn, 20,7 stig í 29 leiikjum veturinn 2013-14.

Í apríl á þessu ári setti Clinch inn færslu á Facebook þar sem hann fór ekki fögrum orðum um Grindavík.

„Mitt fyrrum félag vildi ekki fá mig til baka því ég vildi ekki koma fyrir minni mánaðarlaun,“ sagði Clinch meðal annars í færslu sinni.

Sérfræðingar Domino's Körfuboltakvölds voru fyrstir með fréttirnar í þætti gærkvöldsins og þar ræddu þeir hvort Grindavík ætti að taka Clinch.

„Ég held að Clinch sé ekki rétti maðurinn fyrir Grindavík í dag og ég vona að þetta skúbb sem við erum með hérna sé ekki rétt,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson.

„Ég held þeir þurfi einhvern leikmann sem er aðeins betri.“

Kristinn Geir Friðriksson var honum sammála. „Þeir þurfa aðeins að slíta naflastrenginn við fortíðina. Það er ekki gott. Hættið þessu rugli, horfið aðeins fram á veginn og takið séns. Þeir þurfa bara einfaldlega að þora til að skora. Það er ekki Clinch.“

Grindavík hefur tapað einum og unnið einn leik til þessa í Domino's deildinni. Þeir spila við Keflavík í Suðurnesjaslag í Röstinni á fimmtudag.

Uppfært klukkan 15:37: Talsmaður Grindavíkur hafði samband við Vísi rétt í þessu og sagði að ekki væri búið að ganga frá samningum þó viðræður hefðu átt sér stað. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×