Erlent

Lítil von um að fleiri finnist á lífi eftir fellibyl á Flórída

Kjartan Kjartansson skrifar
Drengur í Panamaborg safnar flöskum úr ísskáp í rústum húss nágranna sinna. Fólk á svæðinu er sagt skorta vatn og mat.
Drengur í Panamaborg safnar flöskum úr ísskáp í rústum húss nágranna sinna. Fólk á svæðinu er sagt skorta vatn og mat. Vísir/Getty
Að minnsta kosti átján manns fórust af völdum fellibylins Mikaels þegar hann gekk yfir suðaustanverð Bandaríkin í síðustu viku og búist er við því að tala látinna hækki enn meira. Lítil von er nú talin til þess að fleiri finnist á lífi á norðvestanverðu Flórída.

Leitað hefur verið að eftirlifendum og líkum látinna um helgina. Sjálfboðaliðar við leit og björgun hafa þegar fundið hundruð íbúa á svæðunum sem var saknað. Slökkviliðsstjórinn í Panama-borg á Flórída segir að aðgerðir nú um helgina beinist hins vegar frekar að því að endurreisa samfélagið þar eftir hamfarirnar.

„Við sólarupprás byrjum við aftur á leitinni. Við vonum að við finnum fleiri [á lífi] en það er meira og meira ólíklegt,“ segir Alex Baird slökkviliðsstjóri.

Rafmagnsleysi og símasambandsleysi hefur háð björgunarstörfum, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Talið er að það gæti tekið einhverjar vikur að koma rafmagni aftur á alls staðar. Þá er nauðstatt fólk á svæðinu sagt skorta drykkjarvatn og matvæli.


Tengdar fréttir

Neyðarástand vegna fellibyls

Fellibylurinn Michael stefnir á Flórída. Spár gera ráð fyrir því að hann gangi á land sem annars stigs fellibylur á morgun. Neyðarástandi lýst yfir og varað við hvassviðri, mikilli úrkomu, hækkandi sjávarborði og flóðum.

Óttast að tala látinna af völdum fellibyls hækki

Þegar er staðfest að sautján manns hafi farist í Bandaríkjunum af völdum fellibylsins Mikaels. Gert er ráð fyrir að fleiri finnist látnir þegar björgunarlið leitar á hamfarasvæðinu um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×