Innlent

Unnur Brá fulltrúi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Unnur Brá Konráðsdóttir er fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Unnur Brá Konráðsdóttir er fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Anton Brink
Unni Brá Konráðsdóttur, aðstoðarmanni ríkisstjórnarinnar, verður falið að tryggja samhæfingu loftslagsmála fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Þetta var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun að tillögu forsætisráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra, að því er fram kemur í frétt á vef Stjórnarráðsins.

Unnur Brá mun annast samhæfingu loftslagsmála fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, tryggja yfirsýn yfir verkefnið í heild sinni og annast eftirfylgni með framgangi loftslagsmála í heild, í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar. Þá mun Unnur Brá áfram vera verkefnisstjóri í vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar og sinna ýmsum öðrum þverfaglegum verkefnum sem aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar.

Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, sem kynnt var 10. september sl. Í aðgerðaáætluninni er gerð grein fyrir fyrirhuguðum verkefnum í loftslagsmálum og hvernig unnt sé að hrinda metnaðarfullum áherslum um loftslagsmál í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar í framkvæmd. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×