Umfjöllun og viðtöl: Valur - Selfoss 24-19 | Auðvelt hjá Val

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. vísir/daníel
Valur vann Selfoss í 5. Umferð Olís-deildar kvenna í kvöld. Leikurinn var kaflaskiptur en Valskonur kláraðu þetta í seinni hálfleik.

Sóknarleikurliðanna var ekki uppá marga fiska fyrsta korterið en staðan eftir 15 mínútur var 3-3. Í þeirri stöðu tók Ágúst Jóhannsson þjálfari Vals leikhlé, eftir þetta leikhlé skoruðu Valskonur þrjú mörk í röð og tóku völdin í leiknum.

Varnarleikur liðanna einkenndi fyrri hálfleik en staðan í hálfleik var 9-7 fyrir Val. Mikið var um tapaða bolta og almennt klaufalegan sóknarleik. Markmenn beggja liða voru með yfir 50% markvörslu í fyrri hálfleik.

Valskonur byrjuðu seinni hálfleik af krafti og komust í stöðuna 12-8. Þá tók Perla Ruth Albertsdóttir leikmaður Selfyssinga leikinn í eigin hendur, skoraði 2 mörk og gaf þeim trú á verkefninu. Á 40. mínútu jöfnuðu Selfoss í stöðunni 12-12, þá tók Gústi þjálfari Vals leikhlé.

Fljótlega eftir leikhléið náðu Valskonur völdum á leiknum. Það var ekki neinn tímapunktur seinasta korterið þar sem maður hélt að Selfoss myndi koma tilbaka og vinna leikinn.

Síðasta korterið var aldrei spurning hver myndi standa uppi sem sigurvegari en Valskonur voru öruggar í aðgerðum sínum undir lokin.

Valsstúlkur fagna í kvöld.vísir/daníel
Af hverju vann Valur?

Valur er einfaldlega sterkara liðið, þrátt að taka lélega kafla hér og þar í leiknum sýndu einstaklingsgæðin sig undir lok leiks.

Hverjar stóðu upp úr?

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir línumaður Vals var besti maður vallarins í kvöld. Skoraði 6 mörk af línunni og dró lélegan sóknarleik Vals áfram í fyrri hálfleik. Hún og Gerður Arinbjarnar gerðu lífið erfitt fyrir Selfyssinga með frábæra varnar frammistöðu í þristunum, myndi ekki vilja þeim tvem í dimmu húsasundi.

Íris Björk Símonardóttir markmaður Vals var frábær í þessum leik, meira en 50% markvarsla og nokkrar frábærar sendingar í hraðaupphlaup. Úr Selfoss liðinu má helst nefna Perlu Ruth sem skoraði 6 mörk og var flott í vörn með nokkra stolna bolta líka.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur beggja liða var á köflum skelfilegur. Mikið af töpuðum boltum og ótímabærum skotum.

Hrafnhildur Hanna og Kristrún voru með samtals 4 mörk úr 27 skottilraunum fyrir Selfoss en þessar tölur verða að batna ef Selfoss ætlar sér að vinna leik í vetur.

Hvað gerist næst?

Selfyssingar leita af fyrsti sigrinum á heimavelli gegn Haukum í næstu umferð. Valskonur fara í Mýrina í erfiðan leik gegn Stjörnunni, sá leikur verður í beinni á Stöð 2 Sport fyrir ykkur sem komast ekki á völlinn.

Ágúst var hress í leikslok.vísir/daníel
Gústi Jó: „Þurfum að bæta okkur sóknarlega”

Þú tekur leikhlé í stöðunni 12-12, eftir það leikhlé vinnið þið leikinn bara nokkuð örugglega, hvað sagður þú í þessu leikhléi?

„Ég reyndi bara aðeins að róa mannskapinn niður. Við vorum að gera of mikið af tæknifeilum frammi og við ætluðum oft að reyna að skora tvö mörk í sömu sókninni og það kann aldrei góðri lukku að stýra. Við náðum aðeins að róa okkur niður og við náðum aðeins betri tökum á sóknarleiknum og aðeins meiri yfirvegun og þá náðum við svona aðeins að sigla þessu heim en við vissum að leikurinn yrði erfiður en Selfoss með gott lið.”

„Það var pínu værukærð yfir okkur, ég veit ekki alveg hvað það var en við sýndum góðar tuttugu mínútur í seinni hálfleiknum og unnum sannfærandi sigur en það er það sem var jákvætt. Það er oft talað um að það sé sterkt að vinna þó maður spili ekki alveg sinn besta leik og ég tek það út úr þessu en við þurfum heldur betur að halda okkur á tánum,” sagði Ágúst Jóhannsson þjálfari Vals um lélegan sóknarleik liðsins í upphafi leiks.

„Það er frábært að hafa Írisi og hún stendur þarna fyrir aftan mjög góða 6-0 vörn. Það er það sem hefur verið okkar styrkur og við þurfum jafnt og þétt að reyna að bæta okkur sóknarlega en það er það sem við erum að vinna í. Við erum með mikið af nýjum leikmönnum, mjög breytt lið frá í fyrra, mikið af ungum leikmönnum að fá stærra og stærra hlutverk þannig að þetta tekur smá tíma og við þurfum að sýna sóknarleiknum þolinmæði,” sagði Gústi þegar hann var spurður um Írisi Björk Símonardóttur markmann Vals eftir leikinn en Íris fór hamförum í marki Vals í kvöld.

„Stjarnan er með gott lið, þetta verður bara erfiður leikur og við þurfum að koma vel undirbúin. Það eru allir leikir í þessari deild erfiðir, þessi deild er mjög jöfn og hún er sterkari en oft áður þannig að við þurfum heldur betur að koma vel undirbúin í Mýrina, ” sagði Gústi um næsta leik Vals sem er á útivelli gegn Stjörnunni.

Perla Rut í leik kvöldsins.vísir/daníel
Örn Þrastar: Eigum fullt erindi í þessa deild

„Við verðum aðeins óskynsamar og förum að flýta okkur á kafla, tökum sénsana of snemma og gefum þeim auðveld mörk úr hraðaupphlaupum. Það er það sem þær þurftu þar sem þær áttu engin svör við okkar vörn fyrstu 40 mínúturnar,” sagði Örn Þrastarson þjálfari Selfoss aðspurður hvernig liðið hans hafi misst leikinn frá sér.

Selfoss vermir botnsæti deildarinnar með eitt stig eftir fimm leiki, þetta hafði Örn að segja aðspurður hvort liðið ætti erindi í deild þeirra bestu.

„Klárlega, ég veit alveg hvað stelpurnar geta og þær vita það sjálfar líka. Þetta mót er rétt að byrja og við tökum bara einn leik í einu áfram og það er margt í dag sem er hægt að byggja á og við munum klárlega gera það.”

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir tók 19 skot í dag en skoraði einungis 4 mörk, Örn hafði þó ekki miklar áhyggjur af því.

„Hún skaut kannski Írisi í landsliðið í dag en Íris var bara frábær í markinu og við lögðum upp með að taka skotin okkar. Það gekk ekki í dag en við vorum frábærar í vörn og við tökum það út úr þessum leik,”

Anna Úrsúla: „Sigur er sigur”

Anna Úrsúla var frábær í dag, skoraði 6 mörk og var lykilmaður að góðum varnaleik liðsins. Hún var ánægð með sigurinn í dag þrátt fyrir það að Valskonur hafi ekki endilega sýnt sínar bestu hliðar í leiknum.

„Sigur er sigur, við hefðum örugglega getað staðið okku betur en við erum bara sáttar með tvö stig,” sagði Anna Úrsúla um frammistöðu liðsins í dag.

„Þessi 6 mörk mín skipta mig svo sem ekki miklu máli, ég er ekki markagráðugasti línumaðurinn en ég sótti boltann kannski aðeins fyrir utan bara til að sýna þeim aðeins hvernig á að gera þetta,” Sagði Anna Úrsúla létt í bragði.

Valskonur eiga erfiðan útileik gegn Stjörnunni í Mýrinni í næstu umferð og búist er við hörkuleik.

„Ég er mjög spennt fyrir næsta leik, Stjarnan er mjög erfitt lið og þar verða í raun og veru allir leikir í vetur ótrúlega erfiðir og maður þarf að gíra sig vel upp í alla leiki og ef við mætum svona gegn Stjörnunni á þriðjudaginn þá er voðinn vís þannig við þurfum að mæta tilbúnar frá fyrstu mínútu”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira