Fótbolti

Spánverjar niðurlægðu Ísland í Árbænum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Eyjólfur og lærisveinar hans voru í vandræðum í kvöld.
Eyjólfur og lærisveinar hans voru í vandræðum í kvöld. mynd/ksí/hilmar
Íslenska landsliðið í fótbolta skipað leikmönnum 21 árs og yngri fékk skell gegn Spáni í Árbænum í kvöld, 7-2. Ísland sýndi þó á tíðum ágætis sóknarbolta en varnarleikurinn var vandræðalegur.

Leikurinn var síðasti leikur Íslands í undankeppni fyrir EM 2019 en fyrir leikinn í kvöld var ljóst að Ísland myndi ekki fara upp úr riðlinum.

Spánverjarnir eru með frábært lið sem höfðu einungis tapað einum af fyrstu níu leikjum sínum í riðlinum. Þeir voru örugglega komnir á EM fyrir leikinn í kvöld og léku þeir listir sínar í kvöld.

Spánverjar komust yfir á 24. mínútu er Mikael Oyarzabal kom þeim yfir af vítapunktinum eftir að Axel Óskar Andrésson gerðist brotlegur. Innan við mínútu síðar tvöfaldaði Rafa Mir forystuna.

Rafa Mir var aftur á ferðinni á 40. mínútu er hann kom Spáni í 3-0 en í næstu sókn minnkaði Jón Dagur Þorsteinsson muninn eftir frábæra sókn íslenska liðsins sem sundurspilaði vörn Spánar.

Spánverjar leiddu með þremur mörkum í hálfleik, 4-1. Eftir mikinn darraðadans við mark Íslands fór boltinn í Hörð Inga Gunnarsson og lak yfir línuna. Ótrúlega svekkjandi.

5-1 var staðan er Carlos Soler skoraði á 54. mínútu en sjöunda mark leiksins skoraði varamaðurinn Óttar Magnús Karlsson með þrumuskoti á 58. mínútu er hann minnkaði muninn í 5-2.

Spánverjar bættu við tveimur mörkum áður en yfir lauk. Borja Mayoral kom þeim í 6-2 á 87. mínútu og í uppbótartíma skoraði Fabian Ruiz sjöunda og síðasta mark Spánar. Lokatölur 7-2.

Ísland endar riðilinn í fjórða sætinu með ellefu stig en Spánverjar eru á toppi riðilsins með 27 stig. Slóvakía og Norður-Írland berjast um annað sætið sem gefur umspilssæti en þau mætast í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×