Erlent

Fan Bingbing mynduð á almannafæri í fyrsta sinn eftir hvarfið

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skjáskot úr myndbandi Baidu News. Fan setti upp derhúfu og sólgleraugu er hún yfirgaf flugvöllinn.
Skjáskot úr myndbandi Baidu News. Fan setti upp derhúfu og sólgleraugu er hún yfirgaf flugvöllinn.
Kínverska kvikmyndastjarnan Fan Bingbing sást í fyrsta sinn á almannafæri síðan hún hvarf sporlaust fyrir þremur mánuðum síðan. Myndband, sem sagt er sýna leikkonuna á ferli í Peking, var birt á kínverska fjölmiðlinum Baidu News og fór í kjölfarið í dreifingu á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo.

Síðast sást til Fan þann 1. júlí síðastliðinn en þá hafði hún nýlega verið sökuð um undanskot frá skatti. Ekkert hafði svo heyrst frá henni á Weibo síðan 23. júlí. Fan rauf að endingu þögnina og sendi frá sér yfirlýsingu í byrjun október þar sem hún sagðist hafa „brugðist þjóð sinni“ en þá hafði ríkisfjölmiðillinn Xinhua greint frá því að hún skuldaði því sem nemur ellefu milljörðum íslenskra króna í skatt.

Bandaríska fréttastofan CNN birti í dag hluta myndbandsins en í því sést Fan yfirgefa alþjóðaflugvöllinn í Peking á mánudagskvöld, ásamt fylgdarliði. CNN hefur þó ekki fengið staðfest að Fan sé konan í myndbandinu.

Fan Bingbing á Cannes-verðlaunahátíðinni í Frakklandi í maí.Getty/Emma McIntyre
Hvarf Fan vakti athygli heimsbyggðarinnar og höfðu nokkrar kenningar verið settar fram um afdrif hennar. Sumir höfðu haldið því fram að hún hafi verið í haldi kínverskra yfirvalda á meðan aðrir fullyrtu að hún hefði flúið til Los Angeles til að sækja um hæli í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×