Erlent

Drap börnin og svipti sig lífi eftir að eiginmaðurinn sviðsetti eigin dauða

Samúel Karl Ólason skrifar
Konan skyldi eftir sig færslu þar sem hún sagðist vilja sameina fjölskylduna á nýjan leik.
Konan skyldi eftir sig færslu þar sem hún sagðist vilja sameina fjölskylduna á nýjan leik. Weibo
Kona í Kína drekkti sér og tveimur börnum sínum eftir að eiginmaður hennar sviðsetti eigin dauða til að svíkja fé út úr tryggingafélagi. Maðurinn hefur gefið sig fram við lögreglu en hann hafði ekki sagt eiginkonu sinni frá áætlun hans. Konan skyldi eftir sig færslu þar sem hún sagðist vilja sameina fjölskylduna á nýjan leik.

Hún stökk út í tjörn með tveimur börnum þeirra sem voru fjögurra ára og þriggja ára.

BBC vitnar í fjölmiðla í Kína og segir að maðurinn hafi keypt líftryggingu í byrjun september, án þess að eiginkona hans vissi af því. Þann 19. september keyrði hann bílaleigubíl út í á. Lík hans fannst ekki en hann var talinn látinn.

Þann 11. október fundust lík konu hans og barna í tjörn nærri heimili þeirra. Í færslu sem hún skrifaði á WeChat, vinsælan samfélagsmiðil í Kína, sagðist hún ætla sér að fylgja eiginmanni sínum og sameina fjölskyldu þeirra.

Hann gaf sig svo fram við lögreglu degi seinna. Áður hafði hann þó birt myndband á netinu þar sem hann grét og sagði fjölskylduna hafa safnað miklum skuldum vegna veikinda þriggja ára dóttur hans. Hún var með flogaveiki.

BBC segir að atvikið hafi leitt til mikillar umræðu í Kína um fjármálavanda fjölskylda í Kína og önnur vandamál þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×