Erlent

Sautján látnir og tugir særðir í árás á skóla á Krímskaga

Samúel Karl Ólason skrifar
Upprunalega var því haldið fram að um sprengjuárás hafi verið að ræða en rússneskir rannsakendur segja nú að öll fórnarlömbin hafi verið skotin.
Upprunalega var því haldið fram að um sprengjuárás hafi verið að ræða en rússneskir rannsakendur segja nú að öll fórnarlömbin hafi verið skotin. EPA/KERCH.FM
Minnst sautján eru látnir og tugir særðir eftir árás í skóla á Krímskaga. Átján ára nemandi skólans hóf skothríð í skólanum og beindi hann byssunni svo að sjálfum sér. Yfirvöld Krímskaga, sem Rússar innlimuðu af Úkraínu árið 2014, segja árásarmanninn hafa heitið Vladislav Roslyakov.

Um 850 táningar stunda nám í umræddum skóla í Kerch.

Upprunalega var því haldið fram að um sprengjuárás hafi verið að ræða en rússneskir rannsakendur segja nú að öll fórnarlömbin hafi verið skotin. Þar að auki var talið að þetta hefði verið hryðjuverkaárás en nú er árásin skilgreind sem fjöldamorð, samkvæmt BBC.



Yfirvöld Rússlands hafa gert fjórar herflugvélar tilbúnar til að flytja særða á hersjúkrahús, reynist þörf á því.

Samkvæmt Reuters liggur ástæða árásarinnar ekki fyrir.



Olga Grebennikova, skólastjóri, lýsti aðstæðum í samtali við rússneska fjölmiðla. Hún sagði lík hafa verið á víð og dreif um skólann. Hún sagði þó einnig að hópur manna hefði ráðist á skólann og það hefði gerst skömmu eftir að hún yfirgaf svæðið. Hún sagði þá hafa kastað sprengjum og að þeir hefðu skotið alla sem á vegi þeirra urðu.

Nemendur sem lýst hafa árásinni tala einnig um að þau hafi heyrt sprengingar.

Foreldrum barna í öðrum skólum og leikskólum borgarinnar hefur verið gert að sækja börn sín í öryggisskyni.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×