Innlent

Vilja íbúakosningu um framtíð kísilversins í Helguvík

Höskuldur Kári Schram skrifar
Tekist var á um kísilverið í Helguvík í gær.
Tekist var á um kísilverið í Helguvík í gær. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK
Meirihluti bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ vill íbúakosningu um framtíð kísilverksmiðjunnar í Helguvík. Oddviti Miðflokksins vill selja verksmiðjuna úr landi og segir útilokað að hægt verði að ná sátt um áframhaldandi starfsemi.

Friðjón Einarsson oddviti Samfylkingarinnar segir að málið sé í biðstöðu á meðan beðið er eftir svörum frá skipulagsstofnun. Hann telur eðlilegt að málinu verði skotið til íbúa.

„Þessi verksmiðja er mjög óvinsæl í Reykjanesbæ. Það er bara þannig. Ferill hennar er slæmur og það mótar afstöðu íbúa. Ég held að stærsta verkefnið hjá þessu nýja fyrirtæki sé að sannfæra íbúa um að þetta sé hægt,“ segir Friðjón.

Margrét Þórarinsdóttir oddviti Miðflokksins segir útilokað að hægt verði að ná sátt um áframhaldandi starfsemi verksmiðjunnar.

„Við vorum með íbúalýðræði á okkar stefnuskrá í kosningabaráttunni og við teljum að íbúarnir eigi að fá að kjósa um þessa verksmiðju. En það er alveg klárt mál að Miðflokkurinn vill þessa verksmiðju úr landi og til þess að það gerist þá verðum við að standa við það deiliskipulag sem er í gildi í dag. Forsendur þess að verksmiðjan fari aftur í gang er að það verði breyting á deiliskipulagi og Miðflokkurinn hafnar því,“ segir Margrét. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×