Erlent

Mikill bruni í skemmti­garði í Kaup­manna­höfn

Atli Ísleifsson skrifar
Bakken í Kaupmannahöfn opnaði árið 1583.
Bakken í Kaupmannahöfn opnaði árið 1583. Mynd/Wikipedia commons
Mikill eldur kom upp í skemmtigarðinum Bakken í norðurhluta Kaupmannahafnar í kvöld. Eldurinn kom upp á veitingastað og var í kjölfarið ákveðið að rýma allan garðinn.

„Það er allt úr timbri þannig að þetta er öflugur eldur,“ segir Jan Hedager hjá slökkviliðinu í dönsku höfuðborginni.

Tilkynning um eldinn barst klukkan 18:30 að íslenskum tíma, eða 20:30 að staðartíma, og mátti sjá mikinn eld og reyk stíga til himins. Danskir fjölmiðlar  segja að ekki sé vitað til þess að nokkur hafi slasast í brunanum.

Bakken, eða Dyrehavsbakken eins og hann heitir fullu nafni, opnaði árið 1583 og er sagður elsti skemmtigarður í heimi. Í garðinum er meðal annars að finna rússíbana úr tré frá árinu 1932, en hann er staðsettur fyrir aftan veitingahúsið sem brann.

Tveimur tímum eftir að slökkvilið mætti á staðinn var búið að ná tökum á eldinum en reiknað var með að um klukkustund til viðbótar taki að slökkva eldinn. Ekki liggur fyrir um upptök eldsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×