Erlent

Talin hafa sett líkams­leifar afans út í smá­köku­deigið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hér sjást ekki hinar eiginlegu smákökur með líkamsleifunum heldur er þetta mynd úr safni.
Hér sjást ekki hinar eiginlegu smákökur með líkamsleifunum heldur er þetta mynd úr safni. vísir/getty
Lögreglan í Kaliforníu kannar nú fregnir af því að stúlka sem er nemandi í gagnfræðiskóla í Sacramento hafi sett líkamsleifar afa síns, sem lést og var brenndur, út í smákökudeig sem hún svo bakaði. Deildi hún síðan smákökunum með samnemendum sínum.

Talið er að hún ásamt öðrum nemanda hafi bakað kökurnar og að minnsta kosti níu samnemendur þeirra hafi smakkað þær.

Engum varð líkamlega meint af enda er aska látinnar manneskju ekki eitruð þó að lögreglumaður í ríkinu hafi sagt við fjölmiðla í Sacramento að mögulega hafi einhverjum liðið andlega illa vegna þessa.

Einn bekkjarbróðir bakaranna ungu sagði við sjónvarpsstöð í Kaliforníu að bekkjarsystir hans hefði sagt honum að það væri sérstakt innihaldsefni í kökunum. Hann segist hafa orðið frekar skelkaður við tíðindin.

Að sögn lögreglunnar er ólíklegt að bakararnir verði kærðir fyrir glæp sinn þar sem talið er að skólinn muni taka á málinu.

Þá er það ekki ljóst hvort að það sé í raun glæpur að nota líkamsleifar látinnar manneskju í bakstur. Skólastjóri gagnfræðaskólans sem nemendurnir ganga í sagði að þeir sem hefðu bakað kökurnar sæju eftir því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×