Innlent

Metradjúpt vatn þegar mest var í miklum vatns­leka í Vals­heimilinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Slökkviliðið var kallað út klukkan sjö í morgun vegna lekans en um gríðarlega mikinn leka var að ræða. Ekki er ljóst hversu mikið tjón varð.
Slökkviliðið var kallað út klukkan sjö í morgun vegna lekans en um gríðarlega mikinn leka var að ræða. Ekki er ljóst hversu mikið tjón varð. vísir/vilhelm
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út rétt fyrir klukkan sjö í morgun vegna mikils vatnsleka í kjallara Valsheimilisins.

 

Samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra varð bilun í kaldavatnsinntaki og flæddi vatn mjög hratt inn. Var það um metradjúpt þegar mest var og fór um stórt svæði í kjallaranum.

Enn er verið að dæla út og hreinsa upp vatn á staðnum en síðan er mikil vinna eftir í framhaldinu við að þurrka svæðið.

Vísir hefur ekki náð í Lárus Blöndal Sigurðsson, framkvæmdastjóra Vals, vegna lekans en hann segir í samtali við Morgunblaðið að hluti af minjasafni félagsins hafi verið geymt í kjallaranum.

Óttast er að tjón hafi orðið á því en meðal málverk, myndir og bækur úr starfi félagsins voru geymd í kjallaranum.

Lárus segist ekki átta sig á hversu mikið tjón hafi orðið en búist er við að Valsheimilið verði meira og minna lokað í dag. Þar er nú bæði rafmagns- og vatnslaust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×