Innlent

„Erfiðasta tjónið er tilfinningalegt“

Kristín Ýr Gunnarsdóttir og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Vatn flæddi meðal annars inn í boltageymslu og herbergi í kjallaranum þar sem bikarar eru geymdir.
Vatn flæddi meðal annars inn í boltageymslu og herbergi í kjallaranum þar sem bikarar eru geymdir.
Lárus Blöndal Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vals, segist ekki gera sér grein fyrir hversu mikið tjón varð í miklum vatnsleka í kjallara Valsheimilisins í morgun.

Þó sé ljóst að tjónið hlaupi á milljónum þar sem bæði rafmagns- og tölvugeymsla félagsins var í kjallaranum. Tölvubúnaður, rafmagn og annað slíkt sé ónýtt.

Erfiðasta tjónið sé þó tilfinningalegt þar sem hluti af minjum Valsmanna var geymdur í kjallaranum.

„Það er ljóst að hluti af þeim hefur skemmst í þessum leka,“ segir Lárus.

Hér fyrir neðan má sjá myndbönd sem Andri Fannar Stefánsson, leikmaður meistaraflokks Vals í knattspyrnu og þjálfari hjá yngri flokkum félagsins, tók í kjallara Valsheimilisins í morgun.

 



Ekki hægt að bæta minjar og minningar

Bikarar, myndir, málverk, félagsskrár og ýmislegt annað var geymt niðri í kjallaranum.

 

„Við erum ekki búin að sjá nákvæmlega hvað það er sem varð vatninu að bráð en það er ljóst að það er eitthvað tjón og eitthvað sem er ekki hægt að bæta sem varð vatni að bráð.“

Lárus segir að það hafi tekist að bjarga einhverju.

„En því miður er vatnið þannig að það sem lendir í vatni það er oft erfitt að bæta það. Erfiðasta tjónið er tilfinningalegt, minjar og minningar sem er ekki hægt að bæta, það er svona sárast í þessu.“

Spurður út í framhaldið í dag segir Lárus að Valsheimilið verði lokað í dag. Síðan verði stöðufundurinn seinnipartinn.

„Við ætlum að reyna að koma starfseminni í gang eins fljótt og hægt er og munum bara tilkynna það um leið og vitum meira um möguleikana um að koma starfinu í gang,“ segir Lárus.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×