Innlent

Ungur fjölskyldufaðir sem vann 19,3 milljónir hélt að um grín væri að ræða

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Annar miðinn var í áskrift og hinn var keyptur hjá Olís við Ánanaust.
Annar miðinn var í áskrift og hinn var keyptur hjá Olís við Ánanaust. vísir/vilhelm
Báðir vinningshafarnir sem skiptu með sér fjórfalda Lottópottinum um síðustu helgi hafa gefið sig fram við Íslenska getspá. Annar miðinn var keyptur í Olís við Ánanaust í Reykjavík en hinn er í áskrift og færðu þeir eigendum sínum rúmlega 19,3 milljónir á mann.

Eigandi áskriftarmiðans reyndist vera fjölskyldufaðir með ung börn á höfuðborgarsvæðinu og var hann  heldur betur hissa þegar hann fékk símtalið góða frá Getspá þar sem honum var tilkynnt um vinninginn. Samkvæmt tilkynningu var maðurinn sannfærður um að einhver vinanna væri að gera grín í sér. Hann hlakkaði til að segja konu sinni fréttirnar, ætlaði að gera gott „móment“ úr því um kvöldið, kannski setja kampavín í kæli og skála fyrir nýju landslagi í fjármálum fjölskyldunnar.

Eigendur miðans sem keyptur var hjá Olís við Ánanaust reyndust vera hjón á besta aldri, einnig á höfuðborgarsvæðinu. Þau spila reglulega með í Lottóinu og voru sannfærð um að einn daginn myndi sá stóri koma til þeirra. Það var því verulega gaman að fara yfir miðann og sjá réttu tölurnar birtast eina af annarri. Þau ætla ekki að sitja ein að þessum nýfengna auð heldur láta gott af sér leiða til samfélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×