Erlent

Vill dýpka samband Íslands og Japans

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Taro Kono, utanríkisráðherra Japans, hefur gegnt embættinu frá því stokkað var upp á síðasta ári.
Taro Kono, utanríkisráðherra Japans, hefur gegnt embættinu frá því stokkað var upp á síðasta ári. Getty/Mateusz Wlodarczyk
„Það veitir mér mikla ánægju að geta heimsótt Ísland fyrstur japanskra utanríkisráðherra. Ísland er mikilvæg vinaþjóð sem deilir með okkur grunngildum. Til að mynda virðingu fyrir lögum og reglu, mannréttindum og lýðræði og áhuganum á frjálsum viðskiptum,“ segir Taro Kono, utanríkisráðherra Japans, í viðtali við Fréttablaðið en hann er staddur á Íslandi vegna Arctic Circle ráðstefnunnar sem hefst í Hörpu í dag.

Kono er meðlimur Frjálslyndra demókrata, ráðandi afls japanskra stjórnmála, og hefur setið á þingi frá árinu 1996. Frá því í ágúst 2017, eftir uppstokkun Shinzos Abe forsætisráðherra á ríkisstjórn sinni, hefur hann gegnt embætti utanríkisráðherra.

Vilja leggja sitt af mörkum

Kono segist vilja ræða við Íslendinga og ráðstefnugesti á meðan á dvölinni stendur um framlag Japans til þess verkefnis að komast að því hvernig sé best fyrir alþjóðasamfélagið að haga málefnum norðurslóða. Ráðherrann segir að norðurslóðastefna Japans, sem samþykkt var árið 2015, sé fyrsta heildstæða stefnan um málefni norðurslóða og hafi þrjár grunnstoðir. Þær eru rannsóknir og þróun, alþjóðlegt samstarf og sjálfbær nýting.

„Japan hefur ákveðið forskot á sviði vísindalegra rannsókna. Japanskir rannsakendur hafa unnið með rannsakendum frá ríkjum á norðurslóðum við að rannsaka og vakta loftslagið, veður, hafið og samfélögin allt frá sjötta áratug síðustu aldar. Með þessum verkefnum vonumst við til þess að geta útskýrt kerfi norðurslóðanna og brugðist við þeim áskorunum sem þar eru komnar upp,“ segir Kono.

Þannig, segir Kono, vill Japan leggja sitt af mörkum með vísindalegum rannsóknum. „Aukinheldur, með tilliti til vísindalegra rannsókna á arðbærum nýtingarmöguleikum norðurslóða, munum við veita mögulegum áhrifum á bæði frumbyggjasamfélög og lífríki viðeigandi athygli.“

Hann segir að Japanar séu sjávarþjóð, rétt eins og Íslendingar, og trúi því að mikilvægt sé að tryggja að lög og regla gildi á Norður-Íshafi. „Japan vill styrkja samstarfið við Ísland og önnur ríki sem deila þeirri hugsjón.“

Taka forystu í loftslagsmálum

Mannkynið glímir nú við loftslagsbreytingar og segist Kono meðvitaður um þær gríðarlegu afleiðingar sem breytingarnar hafa haft á norður­slóðum. „Loftslagsbreytingar eru hnattræn áskorun og alþjóðasamfélagið þarf að vinna saman að því að svara. Japan leggur mikla áherslu á að bregðast við loftslagsbreytingum með stöðugri innleiðingu Parísarsamkomulagsins, með það að markmiði að takmarka hnattræna hlýnun við minna en tvær gráður,“ segir Japaninn.

Kono segir Japan nú vinna að því að skapa heildstæða, nýja sýn á það hvernig best sé að nálgast þessa áskorun. Sýn sem takmarkast ekki af hefðbundnum hugmyndum, eins og Kono orðar það. Í henni segir ráðherrann að felist meðal annars gerð langtímaáætlunar sem byggir á Parísarsamkomulaginu, þar sé leitast við að sameina þekkingu og reynslu. „Þessi sýn gengur að auki út á að gera það að algjöru grundvallaratriði að minnka þurfi útblástur gróðurhúsalofttegunda um áttatíu prósent fyrir árið 2050 sem og að koma á fót jákvæðu samstarfi sem byggir bæði á vexti og umhverfisvernd og stuðlar að tækniframförum undir forystu fyrirtækja.“

Bandaríkin, undir forystu Donalds Trump forseta, hafa dregið sig út úr títt nefndu Parísarsamkomulagi. Trump hefur átt allnokkra fundi með Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans. Aðspurður um hvað Japan geti gert til þess að hvetja önnur ríki heims til þess að taka loftslagsvandann alvarlega segir Kono:

„Japan á í skoðanaskiptum um loftslagsbreytingar á mismunandi stigum við ýmis ríki, meðal annars Bandaríkin. Við leitumst við að útskýra mikilvægi þess að bregðast við loftslagsbreytingum í samræmi við Parísarsamkomulagið. Á meðan við höldum áfram að tjá afstöðu okkar í þessu máli munum við vera leiðandi afl í hnattrænu átaki í átt að afkolefnisvæddum heimi.“

Sambandið við Ísland gott

Kono segir að það gleðji sig ákaflega að sífellt fleiri Japanar heimsæki Ísland. Þeir séu hugfangnir af fegurð landsins, til að mynda þeim fjölmörgu hverum sem hér er að finna. „Svo hef ég líka heyrt að japanska sé næstvinsælasta erlenda tungumálanámið við Háskóla Íslands,“ segir Kono.

Utanríkisráðherrann segist viss um að grundvöllurinn fyrir samstöðu og gagnkvæmum skilningi Íslands og Japans sé góður og öruggur. „Til dæmis er innleiðing samnings á milli ríkjanna um leyfi til dvalar og atvinnu á meðan á ferðalagi stendur (e. Working holiday agreement) í september mikilvægur þáttur í því að efla ferðamennsku.“

Þá minnist hann á fund utanríkisráðuneyta ríkjanna nýverið og segir að búist sé við því að tvísköttunarsamningur á milli Íslands og Japans taki gildi þann 31. október. Á vef Stjórnarráðs Íslands var greint frá því þann 2. október síðastliðinn að skipti hafi farið fram á fullgildingarskjölum vegna samningsins. Þann 31. október komi ákvæði samningsins er varða skipti á upplýsingum og aðstoð við innheimtu skatta til framkvæmda.

„Á því tæpa hálfa ári sem liðið er frá því ég fundaði með [Guðlaugi Þór] Þórðarsyni utanríkisráðherra í maí höfum við séð stöðugar framfarir í samvinnu Japans og Íslands á mörgum sviðum. Þar með talið á sviði stjórnmála, viðskipta og ferðamennsku.“

Eldflaugar og kjarnorka

Um átta þúsund kílómetra frá Íslandi, en einungis þúsund kílómetra frá Japan, er einræðisríkið Norður-Kórea. Á síðasta ári flugu norðurkóreskar eldflaugar yfir Japan og lentu í Japanshafi. Síðan þá hefur ástandið á svæðinu batnað og einræðisherrann Kim Jong-un hefur átt jákvæða fundi með Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, og Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.

Samband Japans og Norður-Kóreu hefur verið stormasamt. Stærsta deilumálið á milli ríkjanna snýr að brottnámi japanskra ríkisborgara, sem Norður-Kóreumenn hafa rænt. Frá árinu 1977 til 1983 hurfu Japanar við strendur ríkisins á dularfullan hátt. Árið 2002 viðurkenndi Kim Jong-il, þáverandi einræðisherra, í viðræðum við Japana sem áttu eftir að leiða til útgáfu hinnar svokölluðu Pjongjangyfirlýsingar, að Norður-Kórea hefði rænt þrettán­ Japönum. Japanska ríkisstjórnin segir hins vegar að sautján hafi án nokkurs vafa verið rænt og að ekki sé hægt að útiloka að Norður-Kórea beri ábyrgð á hvarfi 883 Japana til viðbótar.

Kono segir að stefna Japans er varðar Norður-Kóreu nú gangi út á að útkljá gamlar deilur og koma á eðlilegu stjórnmálasambandi. Segir hann stefnuna í samræmi við fyrrnefnda yfirlýsingu. Hins vegar sé ekki hægt að koma eðlilegu stjórnmálasambandi á fyrr en helstu áhyggjuatriði hafa verið útkljáð. Það er að segja brottnám Japananna og kjarnorku- og eldflaugamál.

„Aukinheldur er vert að nefna að samkomulagið um algjöra kjarnorkuafvopnun Kóreuskagans, sem Kim formaður undirritaði með Trump forseta á hinum sögulega leiðtogafundi Norður-Kóreu og Bandaríkjanna í júní, er afar mikilvægt. Japan vonast að auki til þess að þær sameiginlegu yfirlýsingar sem undirritaðar voru á leiðtogafundi Norður- og Suður-Kóreu í apríl og september á þessu ári muni leiða til þess að Norður-Kórea taki raunveruleg skref í átt að innleiðingu samkomulagsins við Bandaríkin,“ segir Kono. Sú innleiðing sé lykillinn að því að leysa þennan vanda.

Eins og áður segir hefur Kim fundað með leiðtogum Suður-Kóreu og Bandaríkjanna. Þá hefur hann einnig fundað með Xi Jinping, forseta Kína, og viðræður hafa farið fram um mögulegan fund með Vlad­ímír Pútín, forseta Rússlands.

Kono segir hins vegar að eins og stendur hafi ekkert verið ákveðið um leiðtogafund á milli Japans og Norður-Kóreu. „Okkar skilyrði fyrir slíkum fundi væri að þar yrði unnið að lausn á eldflauga- og kjarnorkuvandanum, og það sem mikilvægast er, á brottnámsmálinu.

Alþjóðasamfélagið ætti að sýna samstarfsvilja og styðja ferlið sem Bandaríkin og Norður-Kórea eru í af sinni bestu getu. Í því tilliti er nauðsynlegt að öll ríki innleiði að fullu ákvarðanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Á meðan á heimsókn minni til Íslands stendur vil ég útskýra afstöðu Japans í þessu máli fyrir Íslendingum og dýpka enn frekar samband og samstarf Íslands og Japans,“ segir Taro Kono, utanríkisráðherra Japans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×