Erlent

Trump dásamaði Gianforte fyrir að ráðast á blaðamann Guardian

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump er ánægður með Greg Gianforte.
Donald Trump er ánægður með Greg Gianforte. getty/justin sullivan
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, dásamaði Greg Gianforte, þingmann Repúblikana, fyrir að ráðast á blaðamann breska dagblaðsins Guardian. Þingmaðurinn var kærður fyrir árásina en hann skellti blaðamanninum í gólfið (e. body slam), eins og þekkist í glímu.

Trump ræddi þetta á kosningafundi í Montana í gær en Gianforte réðst á Ben Jacobs, blaðamann Guardian, í maí í fyrra þegar sá síðastnefndi var að spyrja þingmanninn út í stefnu hans í heilbrigðismálum í aðdraganda sérstakra þingkosninga í Bozeman í Montana.

Orðum Trump um Gianforte var vel tekið á fundinum í gær þegar hann sagði að þingmaðurinn væri klár.

„Og þú átt aldrei að fara í glímu við hann. Þið skiljið, aldrei,“ sagði Trump sem hélt áfram undir fagnaðarlátunum:

„Hvaða gaur sem getur skellt öðrum í gólfið, það er gaur að mínu skapi.“

Trump lék síðan eftir hreyfingu þegar einhver skellir öðrum í gólfið.

 



Vonar að Trump biðjist afsökunar á orðum sínum

Fjallað er um málið á vef Guardian og segir þar að þetta sé í fyrsta sinn sem Trump dásami beint ofbeldi gagnvart blaðamönnum á bandrískri grundu.

Ritstjóri blaðsins í Bandaríkjunum, John Mulholland, sendi frá sér yfirlýsingu vegna orða Trump. Sagði hann Bandaríkjaforseta hafa fagnað árás á blaðamann sem var aðeins að vinna vinnuna sína samkvæmt fyrstu grein stjórnarskrár Bandaríkjanna en Trump hefur sjálfur svarið þess eið að verja stjórnarskrána sem forseti.

Þá vísaði Mulholland jafnframt í morðið á sádi-arabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi en tyrknesk yfirvöld segja vísbendingar um að sádi-arabísk yfirvöld hafi ráðið Khashoggi af dögum. Sagði Mulholland í yfirlýsingu að orð Trump byðu hættunni heim varðandi frekari árásir á blaðamenn bæði í Bandaríkjunum sem og um heim allan.

„Við vonum að heiðvirt fólk muni fordæma þessi orð og að forsetinn sjái sóma sinn í að biðjast afsökunar,“ sagði í yfirlýsingu Mulholland.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×