Umfjöllun og viðtöl: KA 25-25 ÍR | Flautumark tryggði KA jafntefli

Arnar Geir Halldórsson í KA-heimilinu skrifar
Björgvin var öflugur í KA-heimilinu í dag
Björgvin var öflugur í KA-heimilinu í dag vísir/ernir
KA fékk ÍR í heimsókn í 6.umferð Olís-deildar karla í dag en um var að ræða gríðarlega mikilvægan leik fyrir bæði lið sem eru að berjast í neðri hluta deildarinnar.

KA-menn byrjuðu leikinn af miklum krafti á meðan ÍR-ingar mættu vægast sagt rólegir til leiks og skilaði það heimamönnum fjögurra marka forystu um miðjan fyrri hálfleik. Í þann mund rönkuðu ÍR-ingar við sér og var leikurinn í jafnvægi út hálfleikinn. KA-menn með tveggja marka forystu í leikhléi, 12-10.

Í síðari hálfleik tóku ÍR-ingar hægt og bítandi öll völd á vellinum og voru komnir með fjögurra marka forskot þegar rúmar sex mínútur lifðu leiks. Héldu þá margir að úrslitin væru ráðin. Heimamenn voru hinsvegar ekki á því og náðu að koma til baka á lokakaflanum.

Það mátti þó ekki tæpara standa því jöfnunarmarkið kom tveimur sekúndum fyrir leikslok og var vel við hæfi að Bosníumaðurinn Tarik Kasumovic skoraði það en hann var allt í öllu í sóknarleik KA í dag.

Afhverju varð jafntefli?

ÍR-ingar voru betri stærstan hluta leiksins og líður líklega eins og einu stigi hafi verið rænt af þeim.

Þá skorti hins vegar klókindi á lokakaflanum og því fór sem fór. Þeir voru með leikinn í höndum sér þegar aðeins sex mínútur voru eftir, á móti liði sem hafði tapað þremur leikjum í röð þegar kom að leiknum í dag. Hins vegar ber að hrósa KA-mönnum að hafa náð að vinna niður þennan mun á lokakaflanum.

Hverjir stóðu upp úr?

Tarik Kasumovic og Jovan Kukobat sóttu þetta stig fyrir KA-menn. Tarik með ellefu mörk og þar af markið mikilvæga í lokin en Jovan er maður leiksins. Hann varði sextán skot og flest þeirra voru úr dauðafærum. ÍR-ingum tókst aldrei að slíta sig lengra en fjórum mörkum frá KA og munar þar mest um opin færi sem fóru forgörðum.

Reynsluboltarnir Sturla Ásgeirsson og Björgvin Hólmgeirsson drógu vagninn í markaskorun fyrir ÍR og voru öflugir sóknarlega. Fyrir utan fyrstu fimmtán mínúturnar spiluðu ÍR-ingar flottan varnarleik þar sem þeir Bergvin Þór Gíslason og Sveinn Jóhannsson voru öflugir.



Hvað gekk illa?

 

Færanýting ÍR-inga fer í þennan dálk í dag. Þeir galopnuðu vörn heimamanna oft á tíðum til þess eins að negla boltanum í Jovan Kukobat. Kristján Orri Jóhannsson er á góðum degi einn besti hornamaður deildarinnar en hann nýtti færin sín illa í dag og annar öflugur sóknarmaður, Bergvin Þór var með tvö mörk úr tíu skotum, mörg hver úr góðum færum.



Hvað er næst?

Landsleikjahlé. ÍR-ingar leika leikinn sem þeir eiga inni því þeir mæta FH-ingum í 5.umferðinni fimmtudaginn 1.nóvember. Næsti leikur KA er á útivelli gegn sjóðheitum Selfyssingum.

 

Bjarni: Fékk rautt spjald fyrir að sparka í brúsa
Bjarni Fritzson er þjálfari ÍR.vísir/bára
KA og ÍR skildu jöfn eftir æsilega lokamínútur í 6.umferð Olís-deildarinnar í KA-heimilinu í kvöld. ÍR-ingar virtust vera að sigla nokkuð þægilegum sigri í hús þar til að KA-menn tóku öll völd á lokamínútunum og náðu að jafna metin tveimur sekúndum fyrir leikslok.

ÍR-ingar voru mjög ósáttir við ákvarðanir dómaranna á þessum lokakafla og fékk Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, að líta rauða spjaldið í leikslok.

Bjarni var þó hinn rólegasti þegar hann mætti í viðtal og fór yfir það hvernig þessi lokakafli horfði við honum.

„Mér sýnist Pétur vera kominn í dauðafæri (í lokasókn ÍR) og það er brotið á honum. Hann nær varla skoti á markið en þeir dæma bara ekki neitt. Ég á ekki orð yfir þetta. Svo sýndist mér vera ólögleg skipting í lokasókninni þeirra en ég er ekki viss. Ég sá það ekki en það bar þess merki. Það skiptir ekki öllu máli,“ sagði Bjarni en afhverju fékk hann rautt spjald?

„Ég fékk rautt spjald fyrir að sparka í brúsa. Ég var svo ósáttur við strákana að við skyldum hafa glutrað þessu niður. Ég var mjög pirraður og sparkaði ágætlega í einhvern brúsa. Ég ræddi ekkert við dómarana í kjölfarið af því,“ sagði Bjarni.

ÍR-ingar voru einnig ósáttir við annað atvik þegar Bjarni taldi sig hafa verið búinn að biðja um leikhlé áður en ÍR fór í skot. Þeir fengu hins vegar ekki að taka leikhléið þá og KA-menn fengu boltann. Þrátt fyrir þessi þrjú stóru atvik segir Bjarni að ábyrgðin liggi fyrst og fremst hjá liðinu sínu.

„Fyrst og fremst erum við ósáttir við okkur sjálfa. Við köstum þessu frá okkur sjálfir og verðum að taka ábyrgð á því.“

„Við vorum rosalega óagaðir fyrstu 15 mínúturnar og þeir skoruðu í hverri sókn. Svo náðum við að loka vörninni og spilum í heildina góðan varnarleik. Við nærðumst á töpuðu boltunum þeirra en ráðum svo kannski ekki við spennustigið hérna í lokin,“ sagði Bjarni að endingu.

Stefán: Ætluðum okkur tvö stig
Stefán á hliðarlínunni gegn Fram í vetur.vísir/bára
Það voru blendnar tilfinnar að bærast innra með Stefáni Árnasyni, þjálfara KA-manna, í leikslok.

„Svekktur að vinna ekki leikinn. Við ætluðum okkur tvö stig og vorum í frábærri stöðu í hálfleik. Missum svo aðeins dampinn í síðari hálfleik og ágætt að ná í stigið úr því sem komið var.“

„Við spiluðum gífurlega góða vörn í fyrri hálfleik en förum að leka alltof auðveldum mörkum í síðari hálfleik. Okkur vantaði aðeins að hafa stjórn á leiknum í kjölfarið,“ sagði Stefán.

KA-menn fögnuðu stiginu gríðarlega enda hafði liðið tapað þremur leikjum í röð þegar kom að leiknum í dag.

„Það er mjög mikilvægt að ná þessu stigi þó við höfum ætlað okkur að ná í tvö. Hvert stig telur því þetta er langt mót og við höldum bara áfram að berjast í þessu,“ segir Stefán en hvað fannst honum jákvæðast við frammistöðu síns liðs í dag?

„Það sem ég tek helst út úr þessu er frábær sóknarleikur, sérstaklega framan af leik. Svo sýnum við frábæran karakter í restina þar sem við neitum að gefast upp. Við erum fjórum mörkum undir þegar það eru 7 mínútur eftir en við fundum leiðir til að koma til baka og jafna leikinn. Við getum verið gríðarlega ánægðir með það.“

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira