Erlent

Barðist brotinn á báðum fótum við skröltorma á meðan hann sat fastur í yfirgefinni gullnámu

Birgir Olgeirsson skrifar
Það tók björgunarstarfsmenn um sex klukkutíma að ná honum upp úr námunni og flytja hann á sjúkrahús.
Það tók björgunarstarfsmenn um sex klukkutíma að ná honum upp úr námunni og flytja hann á sjúkrahús. MARICOPA COUNTY SHERIFFS OFFICE
Bandarískur karlmaður á sjötugsaldri drap þrjá skröltorma á meðan hann sat fastur í yfirgefinni námu brotinn á báðum fótum í tvo sólarhringa á vatns og matar.

Maðurinn er hinn 62 ára gamli John Waddell sem ætlaði sér að síga um þrjátíu metra niður í gamla gullnámu þegar búnaðurinn brást og var fallið um 13 til 15 metrar.

Það tók björgunarstarfsmenn um sex klukkutíma að ná honum upp úr námunni og flytja hann á sjúkrahús.

Vinur hans, Terry Schrader, sagði við fjölmiðla að Waddell hefði hringt í hann á mánudag og sagt honum að hann ætlaði í námuna í leit að gulli og verðmætum málmum. Hann bað hann um að líta eftir sér ef hann hefði ekki snúið aftur degi síðar.

Schrader fór að námunni á þriðjudag, sem er á landareign Waddell í Aguila í Arizona-ríki Bandaríkjanna, um 145 kílómetrum norðvestur af borginni Phoenix.

Náman er á afskekktum stað og ekkert farsímasamband þar. Schrader varð því að keyra dágóðan spöl til að gera björgunarfólki viðvart.

Annar vinur Waddell, Mike Balowski, sagði við fjölmiðla að hann teldi að Waddell hefði drepið snákana því hann hefði verið svo hungraður.

Í Arizona-ríki lifa um þrettán tegundir af skröltormum sem eru eitraðir og getur bit þeirra dregið fullorðna manneskju til dauða.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×